Skip to main content

Fræðslugrein um fractional laser

Fractional lasermeðferð er helst beitt til að stinna húðina, vinna gegn og fyrirbyggja hrukkur.
Henni er einnig beitt á ör, húðslit og litabreytingar í húð. 

 

Af hverju fractional laser?

  • Tæknin sársaukalaus og hættulítil í réttum höndum
  • Hún veitir hærri orku geisla en önnur lasertækni og nær betri árangri
  • Sérfræðilæknir metur hvaða meðferð sé viðeigandi í hverju tilfelli
  • Stundum er önnur meðferð en lasermeðferð vænlegri til árangurs

Hvernig bóka ég lasermeðferð?

  • Við mælum með tíma hjá húðlækni til að tryggja rétta greiningu og viðeigandi meðferð
  • ATHUGIÐ að til eru meðferðaraðilar á Íslandi án nauðsynlegra leyfa sem krefja viðeigandi sérfræðimenntunar umsjónalæknis
  • Þú getur hringt í okkur til að fá tíma hjá húðlækni eða beint til meðferðar

Fractional Laser

Þessi fræðslugrein fjallar um tæknileg atriði á bak við fractional lasera en í henni er einnig að finna tengla á myndbönd og greinar sem fjalla um notagildi lasera.

Fractional lasermeðferð er helst beitt til að stinna húðina, vinna gegn og fyrirbyggja hrukkur og til að vinna á örum, opinni húð, húðsliti og litabreytingum. Tæknin veitir öflugum lasergeislum inn í húðina án þess að skaða hana því eingöngu hluti meðferðarsvæðisins verður fyrir geislunum. Sérfræðilæknir metur í hverju tilfelli hvaða laser sé viðeigandi eða mögulega annars konar meðferð. Hér er fjallað um tæknina sem fractional laserar byggja á.

Hvað er laser (leysir)?

Laser stendur fyrir „Light Amplification by Stimulated Emission of Radiation”. Laserljós verður þannig til að elektróna atóms kemst í tæri við rafsegulbylgju af ákv. tíðni en við það fer hún á lægra orkustig sem leiðir til myndunar orku á formi ljósagna (photon). Ljósagnir eru magnaðar upp í lokuðu hólfi upp í vissa orku. Op er á hólfinu sem hleypir út geislum úr hólfinu sem allir eru af sömu bylgjulengd. Tækjabúnaður ákv. hve lengi geislinn er gefinn í einu.

Laserljós er að finna víða í umhverfi okkar, allt frá laserbendum sem börn leika sér með upp í flókin háþróuð lasertæki til mismunandi nota. Orka ljósgeisla af ákveðinni bylgjulengd, t.d. ósýnilegrar 10600nm bylgjulengdar eins og notuð er í koldíoxíðlaserum (CO2 lasers), getur verið allt frá því að vera ekki skynjanleg á húðinni upp í það að skera hana eins og um skurðhníf væri að ræða.

Hver er munurinn á „venjulegum“ og „fractional“ laserum?

Bæði venjulegir og fractional laserar eru mikið notaðir í húðlækningum til ólíkra nota. Hér verður fjallað um þessar 2 gerðir lasera:

Venjulegir laserar

Þegar þessir laserar koma í snertingu við yfirborð meðferðarsvæðisins baða þeir allt yfirborð húðarinnar innan svæðisins með laserljósi. Meðferðarsvæðið getur t.d. verið varta þar sem húðin verður þá öll fyrir stökum geisla. Stundum er laserhaus lagður á húðina sem baðar þá alla húðina ljósi undir laserhausnum. Laserhausinn er síðan fluttur til svo meðhöndla megi stærra svæði, t.d. heila kinn.

Bylgjulengdir eru valdar í hverju tilfelli fyrir sig sem hæfir því skotmarki (target) sem til stendur að hafa áhrif á. T.d. ef rauð æð er skotmarkið sem við viljum eyða þá eru valdar bylgjulengdir sem rauði litur æðanna dregur til sín og allt meðferðarsvæðið baðað laserljósi. Ekkert annað í heilbrigðri húð er rautt frá náttúrunnar hendi þannig að það ljós sem rauði liturinn nær ekki að draga til sín eyðist upp.  Viljum við með geisla t.d. skaða vörtu veljum við aðra bylgjulengd sem hæfir skotmarkinu.

Fractional laserar

Þegar fractional laserum er beitt að yfirborði húðarinnar gefa þessir laserar eingöngu laserljós á staka staði á yfirborðinu. Snerting lasergeislanna við húðina afmarkast algjörlega eða að mestu við þá staði þar sem geislarnir hitta á húðina innan meðferðarsvæðisins. Á milli staðanna sem verða fyrir ljósi er ósnert húð. Þannig er sértækt hægt að veita laserorku til takmarkaðs hluta meðferðarsvæðisins. Þannig er talað um að fractional laser hylji t.d. 5% yfirborðs sem þýðir þá að 5% af yfirborðinu hefur orðið fyrir ljósi á meðan 95% hafa ekki orðið fyrir því.

Hver er kostur fractional lasera borinn saman við venjulega lasera?

Þar sem heilbrigð húð er á milli ljósgeisla fractional lasera er unnt að veita hærri orku í geislunum án þess að skaða húðina. Aukin orka getur aukið árangur.

Flokkun fractional lasera

Þessir laserar flokkast gjarnan í tvennt eftir því hversu mikil áhrif þeir hafa á húðina. Þeir eiga það sameiginlegt að búa til örsmá dálklöguð (column-lik) göt inn í húðina sem við köllum hitasvæði (microscopic thermal zones).

Non-ablative laserar

Hitasvæðin leiða til eðlissviptingar (denaturation) húðþekjunnar (epidermis) og leðurhúðarinnar (dermis). Þetta leiðir til röskunar á milli þessara tveggja húðlaga. Einnig verður rof undir húðþekjunni (subepidermal clefting). Það skiptir miklu máli varðandi non-ablative lasera að hornlag húðþekjunnar (stratum corneum) losnar ekki frá undirlagi sínu innan húðþekjunnar.

Þar sem laserljósið kemur í snertingu við húðina verður til örlítill lífvana vefur í húðþekjunni (microepidermal necrotic debris eða „MEND“). Vefurinn er álitinn verða til vegna hitaskaða á hyrnisfrumurnar en í honum er m.a. að finna melanín litarefni (Tilvísun í vísindagrein: Laubach HJ et al.: Skin Responses to Fractional Photothermolysis. Lasers in Surgery and Medicine 38:142–149 (2006).). Melanín litarefnið er upprunnið frá sortufrumum (melanocytes).

Eftir hnjaskið hefst viðgerð líkamans frá heilbrigðu húðinni í kring.

Ablative laserar

Hér myndast einnig hitasvæði líkt og hjá non-ablative laserum. Þau eru mismunandi breið og djúp en þetta tvennt veltur á þekkingu meðferðaraðila á bylgjulengd og þeirri púlsvídd (pulse width) sem notast er við. Hol hitasvæðisins myndar litla brunaskorpu (eschar) og í kringum hitasvæðin myndast storknunarsvæði (coagulation zone) með eðlissviptu kollageni. Hér skilur mjög á milli non-ablative og ablative lasera því þeir síðarnefndu losa hornlag húðþekjunnar frá undirlagi sínu í húðþekjunni. Líkaminn gerir síðan við hnjaskið.

Hvernig var þróunin varðandi fractional lasera?

Áður en fractional laserar komu á markað voru m.a. til „venjulegir“ non-ablative og ablative laserar sem byggðu þannig ekki á því að veita laserljósið á fractional hátt. Aukaverkanir með öramyndun og litabreytingum voru aðalvandamálin varðandi þessa lasera vegna orkunnar sem þeir gáfu frá sér m.a. í leðurhúðina og til litafruma.

Hvaða bylgjulengdir nota fractional laserar?

Fractional laserar nota bylgjulengdir þar sem sækni er á milli laserljóssins og vatns. Aukin sækni þýðir einfaldlega meiri áhrif.

Non-ablative fractional laserar nota yfirleitt bylgjulengdir frá 1410-1565nm sem leiðir til takmarkaðrar sækni sem er viðeigandi í mörgum tilfellum.

Ablative laserar nota líkt og non-ablative laserar ólíkar bylgjulengdir. Þannig nota koldíoxíð (CO2) laserar bylgjulengdina 10600nm og svokallaðir „Erbium yttrium aluminium garnet“ laserar, gjarnan kallaðir Er:YAG, bylgjulengdina 2940 nm. Til eru einnig svokallaðir „Yttrium scandium gallium garnet“ (YSGG) laserar sem notast við bylgjulengd ekki fjarri Er:YAG eða 2790 nm. Meiri sækni er milli bylgjulengda ablative lasera og vatns borið saman við non-ablative lasera og því eru áhrifin meiri í húðinni. Aukin áhrif geta verið æskilegt í sumum tilfellum.

Hvað er markmiðið með að hnjaska húðina með fractional lasermeðferð?

Þegar líkaminn lagar hnjaskið sem laserljósið býr til endurnýjar hann húðþekjuna. Í leðurhúðinni verður uppstokkun bæði á kollageni og elastíni (vísindagrein: Borges J et al.: Fractional Erbium laser in the treatment of photoaging: randomized comparative, clinical and histopathological study of ablative (2940nm) vs. non-ablative (1540nm) methods after 3 months. An Bras Dermatol. 2014 Mar-Apr; 89(2): 250–258.). Við þetta fást fram aðrir eiginleikar í húðinni sem verið er að sækjast eftir. Í hinum örlitla lífvana vef í húðþekjunni (sjá að ofan) er að finna melanín frá litafrumum. Losun þess út á yfirborð húðarinnar hjálpar við meðferð vissra litabreytinga í húðinni.

Laserar eru notaðir í lýtahúðlækningum m.a. til að:

Stinna leðurhúðina og bæði vinna á og fyrirbyggja þannig fíngerðar línur, hrukkur og áberandi fellingar

Myndband

Meðhöndla opna húð

Myndband 

Grein

Vinna á örum sem verða til t.d. vegna visnunar (atropic scars) eftir þrymlabólur

Myndband

Greinar

Vinna gegn þrymlabólum (acne)

Vinna gegn húðsliti

Myndband

Greinar

Vinna gegn sólsköðum

Myndband

Vinna á húðflúri

Myndband

Útvarpsviðtal

Greinar

Vinna gegn húðsvertingu (melasma) í andliti t.d. tengt barnsburði

Árangur meðferðar og mögulegar aukaverkanir

Vænta má góðs árangurs lasermeðferðar í höndum reynds sérfræðilæknis. Aukaverkanir eru óvanalegar en geta verið örmyndun en einnig litabreytingar sem ganga yfirleitt yfir.

META ÞARF ÖLL TILFELLI AF SÉRFRÆÐILÆKNI M.T.T. VALS RÉTTRAR MEÐFERÐAR, VIÐEIGANDI FRAMKVÆMDAR OG FYLGNI MÖGULEGRA AUKAVERKANA.

Athygli geta vakið:

Myndbönd

Greinar

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út