Skip to main content

Útlitslækning á Grensásvegi er kósí lækna- og tannlæknastofa sem veitir mjög persónulega þjónustu. Hún sinnir lýtahúðlækningum á breiðum skala, almennum húð- og kynsjúkdómalækningum, tann- og munngervalækningum, en einnig almennum tannlækningum.

Dr. Bolli Bjarnason, húð- og kynsjúkdómalæknir, hefur starfað við lýtahúðlækningar hjá Útlitslækningu í um tuttugu ár.

„Markmið allra lýtahúðmeðferða er að forðast hníf og að þær séu sársaukalausar eða sársaukalitlar,“ segir Bolli um þær fjölmörgu meðferðir sem hægt er að gangast undir hjá Útlitslækningu.

Slök húð og hrukkur

Þegar kemur að því að fyrirbyggja og meðhöndla hrukkur, andlitsfellingar og slakleika í andliti, á hálsi, handleggjum og kvið, segir Bolli sólarvörn vera mikilvægasta fyrirbyggjandi þáttinn. Útlitslækning hafi líka yfir nokkrum meðferðum að velja.

„Við notum „fractional“ lasermeðferðir til að koma í veg fyrir og vinna gegn slakleika og opinni andlitshúð. Koldíoxíð „fractional“ laserar, sem losa yfirboð húðarinnar eru öflugustu laserar veraldar til þessa. Við meðferðina endurmótast kollagen húðarinnar og þá stinnist húðin sem bætir hrukkur og fellingar.“

Fyrirbyggjandi meðferðir segir Bolli að byrji oft um þrítugt.

„Í sumum tilfellum beitum við ELOS- eða FACES-tækni. Þær aðferðir beita tvískauta útvarpsbylgjum en auk þess hefur FACES púlssog og ELOS ljósorku,“ upplýsir Bolli.

Í efri hluta andlits kemur vöðvaslakandi meðferð til greina.

„Þá notum við húðfyllingarefni oftast í hrukkur, til að móta andlit og varir en einnig til að draga úr sýnileika sina á handarbökum og í andlitsfellingar svo sem niður frá munnvikum sem mynda fýlusvip. Meðferðin reynir á listræna hæfileika læknisins og val hans á réttu hágæðaefni, en vinsælust eru niðurbrjótanleg efni úr hýalúrónsýru,“ segir Bolli og bætir við að hvert tilfelli verði að meta gaumgæfilega því velja þurfi bestu mögulegu meðferð hverju sinni.

Með lasermeðferð er hægt að meðhöndla æðar hvar sem er á líkamanum.

Æðaslit truflar marga

Margir glíma við áberandi æðaslit í andliti, valbrá eða rósroða en hægt er að draga úr því með lasermeðferðum hjá Útlitslækningu.

„Segja má að æðaslit í húð sé háræðaslit á meðan valbrá er meðfædd æðavansköpun með útvíkkuðum æðum,“ útskýrir Bolli.

Hann segir rósroða vera heilkenni með ólíkum birtingarmyndum í andliti.

„Roði vegna æða og stundum bólur og bólgur í húð eru mest truflandi. Greining rósroða er læknisfræðileg og stundum þarf sýnatöku. Val meðferðar, framkvæmd og eftirfylgni kallar svo á aðkomu læknis,“ segir Bolli.

„Lasermeðferð vinnur gegn æðasliti, valbrá og rósroða. Þá nær laserljósið inn í æðar sem eyðast sértækt en ávallt þarf að hafa í huga að læknisfræðilegar ástæður geta hamlað meðferð.“

Að sögn Bolla þarf laser að geta gefið nægjanlega ljósorku til að eyða æðum án aukaverkana.

„Þegar æðaslit á ganglimum er meðhöndlað á sama hátt gilda sömu grunnatriði varðandi greiningu, meðferðarval, framkvæmd og eftirfylgni.“

Óæskilegur hárvöxtur og inngróin hár

Hárvöxtur á áberandi eða óæskilegum stöðum truflar marga og bendir Bolli á að til séu aðrar leiðir en að raka, plokka og vaxa hár.

„Lasermeðferð veldur hnjaski á svörtum hárrótum sem stöðvar hárvöxt. Með tímanum missir hár lit og svarar síður slíkri meðferð, því er gott að meðhöndla lituð hár snemma. Sama gildir um inngróin hár en yfirleitt er þá samtímis beitt annarri læknisfræðilegri meðferð vegna sýkinga,“ upplýsir Bolli.

Önnur læknisfræðileg meðferð dregur úr hraða hárvaxtar óháð hárlit.

„Áður en lasermeðferð gegn hárum hefst þarf læknir að meta undirliggjandi ástæður hárvaxtar. Ofloðna kallast það þegar kvenfólk fær hárvöxt vegna aukinna karlhormóna en hormónar geta komið frá eggjastokkum eins og við fjölblöðrueggjastokkaheilkenni, frá nýrnahettum eða heiladingli. Lyf geta líka innihaldið slíka hormóna og önnur aukið framleiðslu þeirra,“ útskýrir Bolli.

Aukinn hárvöxtur án stýringar karlhormóna kallast hárofvöxtur. Ástæður geta meðal annars verið skjaldkirtilsvandamál, lyf og lystarstol.

„Fara þarf læknisfræðilega vel yfir hvert tilfelli með tilliti til réttrar greiningar og meðferðar mögulegra undirliggjandi þátta. Til eru ástæður sem hamla lasermeðferð og þá þarf eftirlit læknis varðandi meðferðir, framkvæmd og eftirfylgni,“ segir Bolli.

Meðferð gegn innföllnum örum og slakleika andlits.

Bæta og fjarlægja ör

Ör eru lýti sem margir vilja draga úr eða fjarlægja. Flokka má ör í innfallin ör og útstandandi ör, sem er vefjaauki. Litamunur og skuggamyndun auka á lýtin.

„Við notum „fractional“ lasera við innfallin ör en einnig ELOS-aðferð með sérstakri húðslípun,“ segir Bolli. „Koldíoxíð „fractional“ laserar sem losa um yfirborð húðar koma hér við sögu, en í mörgum tilfellum getur verið nægjanlegt að beita „fractional“ laserum sem valda ekki slíku losi. Í andliti stinna meðferðirnar samtímis andlitshúðina, þétta hana og vinna gegn slakleika, hrukkum og andlitsfellingum.“

Gegn innföllnum örum finnst Bolla koldíoxíð „fractional“ laser, sem losar um yfirborð húðar, vera öflugri en Dermapen sem stingur litlum nálum í húðina. Stundum geti aðgerð átt við.

„Útstandandi ör kalla á meðferðir sem draga úr örvefnum. Huga þarf að því að fjarlægja rauðan, blárauðan eða brúnan lit úr örum með sérstökum laser eða öðrum læknisfræðilegum aðferðum, allt eftir tilfellum,“ upplýsir Bolli.

Lit eytt úr húðflúri.

 

Húðflúr á bak og burt

Þótt húðflúr hafi rutt sér æ meira til rúms að undanförnu eru líka margir sem vilja losna við flúrin sín.

„Gegn húðflúrum er í dag notaður sérstakur laser sem brýtur litaagnirnar niður í minni agnir sem ónæmiskerfið eyðir upp. Séu margir litir í flúrinu getur þurft ólíkar bylgjulengdir laserljóss til að eyða því,“ segir Bolli.

Orkan þarf að vera mikil og púlstíminn stuttur fyrir góðan árangur og lágmarksáhættu.

„Laserar sem veita tvö skot í stað eins þegar skotið er á flúrið, eru í raun að veita tvöfalda meðferð. Við höfum blessunarlega verið laus við öramyndanir eða litamun, en verði óeðlileg svörun þarf læknir að bregðast strax við,“ segir Bolli.

Læknisfræðilegar ástæður geta staðið í vegi fyrir meðferð, svo sem lyfjameðferð, húðlitur og örahætta. „Sum lítil húðflúr getur verið betra að taka með aðgerð. Aðferð sem beitir litalosun upp á yfirborð húðar reyndist okkur ekki eins vel.“

Litað húðslit gert lítið sýnilegt.

 

Taka lit úr slitum

Meðferðir við húðsliti eru stundaðar hjá Útlitslækningu.

„Húðslit er línuleg visnun í húðinni sem myndast vegna húðtogs, til dæmis vegna ört stækkandi fósturs, hraðs vaxtar eða lyfja. Þau geta truflað þá sem slitin bera vegna sýnileika visnunarinnar og skuggamyndunar en mikilvægast er að ná rauðum og/eða bláum lit úr slitunum, sé hann til staðar,“ segir Bolli.

Meta þarf fólk læknisfræðilega út frá sjúkrasögu, gerð slits og húðgerð. „Meðferðir geta verið með „fractional“ laser, ELOS, húðslípun, útvortis efni eða sérstökum laser gegn rauðum eða bláum æðum. Við notum ekki Dermapen við þessar meðferðir. Þá geta ólíkar aðferðir átt við í sama tilfellinu. Meðferðarmarkmið er að ná í burtu lit og að hækka húðina upp í slitunum,“ segir Bolli.

Hægt er að vinna á fitufellingum og stinna húðina með merðferðum hjá Útlitslækningu.

 

Fitufrumum eytt

Bolli er inntur eftir því hvað sé til ráða þegar fólk í kjörþyngd eða nálægt kjörþyngd sé enn með svolitlar fitufellingar.

„Fitufrysting eyðir fitufrumum,“ upplýsir Bolli. „Aðferðin fjarlægir minni háttar fitufellingar og mótar líkamslínur. Til eru ástæður sem hamla meðferðinni og geta krafist læknisfræðilegra rannsókna. Meta þarf meðal annars vænleika árangurs, hvort önnur læknisfræðileg meðferð eigi betur við, eða jafnvel engin meðferð, og hvort framkvæmd sé möguleg án þess að frysta annað en fitu og húð.“

Meðferð við appelsínuhúð er einnig stunduð hjá Útlitslækningu.

„Við beitum hljóðfitueyðingu sem byggir á gjöf hljóðbylgja sem rjúfa frumuhimnur fitufruma. Aðferðin er einnig notuð gegn fitukeppum og til að endurmóta líkamslínur, en læknir þarf að meta hvort fitufrysting eigi betur við, önnur meðferð eða engin meðferð. Til eru læknisfræðilegar ástæður sem mæla gegn meðferð og stundum eru rannsóknir nauðsynlegar,“ útskýrir Bolli, en þess má geta að aðferð Útlitslækningar við meðhöndlun appelsínuhúðar kemur í stað „ELOS Endermologie“-aðferðar.

Djúpu sliti er lyft og litur fjarlægður.

 

Litabreytingum eytt

Hægt er að fjarlægja eða draga úr litabreytingum í húð vegna sólarskaða, húðsvertingar (melasma) eða ellivarta.

„Allt eru þetta góðkynja fyrirbæri sem þurfa að greinast rétt því illkynja húðbreytingar geta líkst þeim. Meðferðirnar eru læknisfræðilegar með laser eða annarri meðferð,“ útskýrir Bolli.

Hendur sem eldast fá meiri fyllingu.

 

Vantar stífari reglugerð

Hann er spurður um aðkomu ýmissa aðila að fegrunarmeðferðum.

„Varðandi lasermeðferðir vantar einfaldlega stífari reglugerð hér á landi en takmörkun við lækna. Í Danmörku er í samanburði eingöngu húð- og kynsjúkdómalæknum heimilt að stýra slíkum húðmeðferðum. Þar er krafist lækningaleyfis fyrir meðferð með húðfyllingarefnum og að auki sérstakrar staðfestingar á þekkingu læknisins, en á Íslandi getur hver sem er flutt inn hvað sem er og sprautað í fólk. Það er með ólíkindum hvað fólk lætur meðferðaraðila án læknismenntunar gera við sig. Við sjáum mikið af alvarlegum aukaverkunum vegna vanþekkingar og mér af vitandi er starfsemi, sem verður að teljast læknisfræðileg en framkvæmd utan heilbrigðisgeirans, algjörlega eftirlitslaus og án trygginga meðferðaraðila.“

Útlitslækning er á Grensásvegi 13. Tímapantanir í síma 544 4450 eða á netinu, þar sem hægt er að senda Bolla fyrirspurnir á utlitslaekning@utlitslaekning.is. Meira til og fræðsla á utlitslaekning.is.

—-

Um hópmynd: Dr. Bolli Bjarnason ásamt Tönju Jóhannsdóttur, hjúkrunarfræðingi og Dagnýju Ólafsdóttur, snyrtifræðimeistara og næringarfræðingi hjá Útlitslækningu. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Greinin birtist sem viðtal í Fréttablaðinu Laugardaginn 26. september 2020

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út