Skip to main content

Rósroði og æðaslit 

Meðferð gegn rósroða og æðasliti

Rósroði, æðaslit, valbrá og storkabit eru dæmi um vandamál sem má leysa annars vegar með lyfjagöf og hins vegar með lasermeðferð.

Meðferðarúrræði fer eftir tegund en hér er aðallega fjallað um rósroða og æðaslit í andliti. 

Lyfja- eða lasermeðferð?

  • Lyfjameðferð getur verið beitt útvortis eða innvortis, aðallega gegn kýlum og bólum
  • Henni er beitt með eða án lasermeðferðar
  • Lasermeðferð er notuð gegn áberandi háræðum til að minnka roða húðarinnar

 

Hvernig bóka ég meðferð?

  • Við mælum með tíma hjá húðlækni til að tryggja rétta greiningu og viðeigandi meðferð
  • ATHUGIÐ að til eru meðferðaraðilar á Íslandi án nauðsynlegra leyfa sem krefja viðeigandi sérfræðimenntunar umsjónalæknis
  • Þú getur hringt í okkur til að fá tíma hjá húðlækni eða beint til meðferðar

Frekari upplýsingar

Roði í andliti orsakast oft af æðum í rósroða eða æðasliti. Kröftug lasermeðferð eyðir æðunum og minnkar þannig roðann á meðan kýli og bólur krefjast lyfjameðferðar. Hinar mörgu birtingarmyndir rósroða kalla á mjög sérhæft mat sérfræðilæknis fyrir meðferð.

Rósroði

Hvað er rósroði?

Rósroði er langvinnt (chronic) heilkenni (syndrome) með ólíkum birtingarmyndum. Í húðinni birtist hann aðallega á kinnum, nefi, höku og enni en sjaldan á augnlokum.

Rannsóknir hafa sýnt 10% eða hærra algengi (prevalence) í hvíta kynstofninum. Rósroði greinist oftar hjá konum og er algengastur eftir þrítugt.

Flokkun rósroða

Ein flokkun rósroða í 4 gerðir:

  • Hörundsroðaháræðaslit (enska: erythematotelangiectatic)
  • Nabbar og graftarbólur (enska: papulopustular)
  • Hnúskakvillar (enska: phymatous)
  • Augu (enska: ocular)

Einkenni (symptoms) og teikn (signs)

Algeng einkenni og teikn rósroða eru (eitt eða fleiri samtímis):

  • Hörundsroði (erythema)
  • Háræðaslit (háræðavíkkun)
  • Roðaköst (flushing)
  • Nabbar (papules)
  • Graftarbólur (pustules)
  • Hnúskar svo sem brennivínsnef (rhinophyma)
  • Brunatilfinning (burning sensation)
  • Sviða- og stungutilfinning (stinging sensation)
  • Bjúgur (oedema)
  • Þurrkur (dryness)
  • Augneinkenni (ocular symptoms and signs)

Hvað veldur?

Ástæður sjúkdómsins eru óþekktar en þættir sem framkalla oft roðann eru líkamlegt eða andlegt álag, hiti, kuldi, sól, kryddaður matur og vín.

Æðaslit (enska: Telangiectasia)

Hér er um að ræða háræðaslit eitt og sér en það er einnig stundum kallað háræðavíkkun. Þetta er eitt af einkennum rósroða en veldur ekki roðaköstum. Æðaslit getur komið fram í andliti en einnig víðar á líkamanum, svo sem á bringu og á ganglimum, æðaslit á ganglimum.

Valbrá (Lat.: Nevus flammeus eða enska: Port-wine stain)

Valbrá er meðfædd æðavansköpun (vascular malformation) í húð sem einkennist af útvíkkuðum æðum. Svæðið er slétt og rautt eða blárautt. Valbrá getur komið hvar sem er og ástæður eru ekki þekktar en kenning byggir á að litlar taugar skorti til að draga saman litlar blóðæðar.

Storkabit (stork bite)

Hér er á ferðinni æðafæðingarblettur (vascular birthmark) í hnakka með víkkuðum æðum með sama útliti og valbrá.

Hvað er til ráða?

HÚÐSJÚKDÓMA MÁ TELJA Í ÞÚSUNDUM. RÉTT SJÚKDÓMSGREINING ER UNDIRSTAÐA RÉTTRAR MEÐFERÐAR. MARGIR SJÚKDÓMAR GETA GEFIÐ EINKENNI SEM LÍKJAST ÞESSUM SJÚKDÓMUM EN KALLA Á ALLT AÐRA MEÐFERÐ.

Rannsóknir

Stundum þarf sérfræðilæknir að framkvæma sýnatöku(r) til að tryggja rétta greiningu.

Lyfjameðferð

Útvortis og/eða innvortis lyfjameðferð með eða án lasermeðferðar getur átt við allt eftir tilfellum. Hinar mörgu birtingarmyndir rósroða kalla á mjög sérhæft mat sérfræðilæknis m.t.t. meðferðar. Lyfið isotretinoin kemur til greina í sumum tilfellum. Lyfjastofnun ráðleggur að slíkri lyfjameðferð „sé stjórnað af eða sé undir eftirliti sérfræðings (t.d. í húðsjúkdómum)“. Lyfjainnspýtingar geta átt við í sumum tilfellum við meðferð æða í andliti að undangengnum rannsóknum.

Lasermeðferð gegn æðum í rósroða, æðasliti, valbrá og storkabiti

MIKILVÆGT ER AÐ SÉRFRÆÐILÆKNIR GREINI RÓSROÐA, ÆÐASLIT EÐA VALBRÁ FYRIR MEÐFERÐ ÞVÍ MARGIR SJÚKDÓMAR GETA GEFIÐ SVIPAÐ ÚTLIT OG KALLAÐ Á AÐRA MEÐFERÐ. EINNIG GETA ÝMSAR LÆKNISFRÆÐILEGAR ÁSTÆÐUR STAÐIÐ Í VEGI FYRIR MEÐFERÐ.

Við hvernig æðum er laser notaður?

Meta þarf hvert tilfelli en laser getur hjálpað gegn flestum gerðum æða. Háræðavíkkanir gera æðar sýnilegri. Það eru einmitt þannig æðar sem svara lasermeðferð best og sem hægt er að fjarlægja varanlega með nútíma læknalaserum.

Verkunarháttur lasera

Nokkrar gerðir lasera eru til á markaðinum til að eyða æðum. Lasermeðferðir gegn æðum byggja á gjöf laserljósgeisla inn í húðina sem rauði liturinn í rauðu blóðkornunum dregur til sín. Ljósið leiðir til hnjasks á æðunum sem eyðast upp af átfrumum (macrophages). Meðferðin hefur engin áhrif á önnur líffæri húðarinnar þar sem engan rauðan lit er þar að finna.

Grunnatriði varðandi alla lasera er að þeim takist að gefa nægjanlega ljósorku á viðeigandi stað í húðinni þannig að orkan valdi nægjanlegu hnaski á æðunum án aukaverkana. Til þess að þetta takist þarf laserinn að vera af hæsta mögulega gæðaflokki. Margir laserar á markaðinum eru ekki af slíkum gæðum og tekst því ekki að fjarlægja æðar vel og varanlega.

Hvers er að vænta af meðferð?

Stærri æðar svara best og vænta má að þær eyðist endanlega auk lítilla æða sem eru af þeirri stærðargráðu að þær séu sýnilegar með augunum. Litlar æðar sem eru ekki sýnilegar með augunum svara minna en fleiri meðferðarskipti í öflugum laser geta hjálpað að fækka þeim.

Aðgerðir fyrir og eftir lasermeðferð

  • Aftra þarf snertingu við sólarljós a.m.k. 1-2 vikur fyrir og eftir meðferð. Sólartengdur roði eða brúnka þarf að hafa horfið algjörlega fyrir meðferð.
  • Brúnkukrem þurfa að hafa horfið algjörlega úr húðinni fyrir meðferð.
  • Æskilegt er að útsetja sig ekki fyrir miklum hita rétt fyrir og eftir meðferð svo sem heitum böðum.
  • Sérgreinalæknir tekur afstöðu til hvort útvortis eða innvortis lyfjameðferð þurfi að stöðvast á meðan á meðferð stendur.

Hvernig fer meðferðin fram?

Til að tryggja öryggi þitt eru sett á þig sérstök gleraugu sem vernda augun fyrir laserljósinu. Góð regla er að hafa augun lokuð á meðan á meðferð stendur en það er engin skylda. Í algjörum undantekningartilfellum er húðin deyfð með deyfikremi fyrir meðferð.

Laserhausinn er látinn leika um meðferðarsvæðið eftir ákv. reglum. Kæling í hausnum ver húðina fyrir hita ljóssins. Hver meðferð tekur oft um 10 – 20 mín. eftir stærð meðferðarsvæðisins.

Óháð laserum þarf alltaf nokkrar meðferðir fyrir varanlega eyðingu æða. Tímabil á milli meðferða getur verið frá 1 – 2 vikum eftir meðferðarsvæðum. Æskilegt er að endurtaka meðferðir þétt því æðar sem hnjaskast við eitt meðferðarskipti eru best hnjaskaðar aftur við næsta meðferðarskipti ef þær hafa ekki náð að endurnýja sig eftir fyrra meðferðarskiptið.

Hvenær kemur árangur meðferðar fram og hve lengi varir hann?

Árangur kemur fram hægt og rólega og er hann varanlegur.

Kostir lasermeðferðar

  • Árangur lasermeðferða er yfirleitt mjög góður með nútíma læknalaserum.
  • Lasermeðferðir gegn æðum eru sársaukalitlar eða sársaukalausar með þeim búnaði sem við notum. Þær eru mjög áhættulitlar.
  • Unnt er að fara beint til vinnu að lokinni meðferð.

Gallar lasermeðferðar

  • Meðferðir geta valdið vægum roða sem gengur hratt yfir. Mikilvægt er að roði hafi gefið sig áður en farið er í sól. Sé það ekki gert er mögulegt að fram komi litamunur í húðinni sem getur tekið svolítinn tíma að hverfa. Lýst hefur verið að slíkur litamunur geti orðið varanlegur.
  • Allir laserar geta mögulega valdið örum en þau tilheyra til algjörra undantekninga.
  • Hér má finna upplýsingabækling European Academy of Dermatology and venereology (EADV).
  • Notkun lasera er örugg í réttum höndum. Hún krefst umsjónar eða meðferðar sérfræðilæknis sem getur TAFARLAUST gripið inn í verði vart við aukaverkanir.

ÖRYGGISVIÐVÖRUN!
AF ÖRYGGISÁSTÆÐUM ER LASERMEÐFERÐ Í FEGRUNARSKYNI BÖNNUÐ Á ÍSLANDI ÁN AÐKOMU LÆKNIS MEÐ VIÐEIGANDI SÉRFRÆÐIMENNTUN SVO SEM HÚÐLÆKNIS EINS OG KRAFIST ER Í DANMÖRKU. TIL ERU ÓLÖGLEGIR HEILBRIGÐISSTARFSMENN SVO SEM LÆKNAR EÐA HJÚKRUNARFRÆÐINGAR SVO OG SNYRTIFRÆÐINGAR MEÐ SLÍKA STARFSEMI.

Grein og fyrir/eftir myndir

Rósroði og æðaslit í andliti

Provided courtesy of Michael Sinclair, MD and reprinted with permission by Palomar Medical Technologies, Inc.

Provided courtesy of Stephen Martin, MD and reprinted with permission by Palomar Medical Technologies, Inc.

Photos provided by Palomar Medical Technologies, Inc.

Photos provided by Palomar Medical Technologies, Inc.

Æðaæxli (hemangiomas)

Provided courtesy of Sean Doherty, MD and reprinted with permission by Palomar Medical Technologies, Inc.

Háræðastjarna (spider nevus)

Photos provided by Palomar Medical Technologies, Inc.

Sjá einnig greinar:

Lasermeðferð gegn æðum er gjarnan beitt gegn:

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út