Skip to main content

Ritstjórn Kvennablaðsins skrifar
Birt 3. jan, 2015
ÚTLIT & HEILSA

Í þessari grein fáum við svör við ýmsum spurningum er varða rósroða og æðaslit í andliti. Það er húð- og kynsjúkdómalæknirinn Bolli Bjarnason sem situr fyrir svörum. Bolli starfar m.a. við lýtaútlitslækningar hjá Útlitslækningu. Bolli starfaði í níu ár erlendis, í Bandaríkjunum, Svíþjóð og í Danmörku áður en hann fluttist til Íslands. Bolli kennir við læknadeild Háskóla Íslands.

Hvað einkennir hvort um sig rósroða og æðaslit?

Rósroði hefur tilhneigingu til að birtast á kinnum, höku, nefi og stundum á enninu. Þessi sjúkdómur hefur ólíkar birtingarmyndir. Um er að ræða roðaköst en þeim fylgir oft bruna- eða pirringstilfinning. Áberandi æðar geta myndast svo og bólur. Aðrir sjúkdómar geta valdið svipuðum einkennum og er því mikilvægt að sjúkdómsgreining sé framkvæmd af lækni.
Stundum myndast í rósroða fyrirbæri sem ber rangnefnið brennivínsnef (e. rhinophyma) en það einkennist helst af þykknun húðarinnar, stækkun nefsins og stundum bólum og kýlum á nefinu.
Gagnstætt við rósroða einkennist æðaslit í andliti eingöngu af áberandi æðum. Það getur sett sig hvar sem er í andlitið.

Hver er ástæða rósroðans?

Ástæða myndunnar rósroða er óþekkt en segja má að til séu þeir þættir sem leiði til útvíkkunar æða geri hann verri. Má þar nefna heita drykki, vín, kryddaðan mat, sól og bæði tilfinningalegt og líkamlegt álag.

Þú segir sól, við höfum heyrt að sumir batni af sínum rósroða í sól, hvað segir þú um það?

Já, það finnst mörgum en það er eingöngu tilkomið vegna þess að brúni liturinn í brúnkunni felur vel rauða litinn líkt og brúnn andlitsfarði sem notaður er yfir rauðar húðbreytingar svo sem bólur. Þegar brúnkan fer að hausti er þess að vænta að sjúkdómurinn hafi versnað. Þetta sést best eftir nokkur illa eða óvarin sólarsumur.

Er sólarvörn þá mikilvæg í rósroða?

Já bæði sólarvörn og derhúfa passa vel fyrir rósroða í sól. Það er alltaf æskilegt að nota sólarvörn og klæða hana af sér líka vegna annarra áhætta svo sem krabbameins- og hrukkumyndana.

Hverfur rósroði með tímanum?

Nei því miður, þess er að vænta að hann versni með tímanum komi meðferð ekki til.

Ljósmynd efst í grein eftir: DANIEL WARD tekin af vef Allure.com

Hvernig losnar maður þá við rósroða og æðaslit?

Meðferðir rósroða fara mikið eftir birtingarmynd sjúkdómsins.
Það er til innvortis sýklalyf sem getur stundum dregið æðarnar saman og minnkað rósroðann. Vandamálið við gjöfina er að þegar henni er hætt er þess að vænta að sjúkdómurinn komi óbreyttur til baka. Það segir sig sjálft að slík meðferð er ekki komin til að vera til lengri tíma og sumir svara henni ekkert eða lítið.
Sé um yfirborðsbólur að ræða getur útvortis lyfjameðferð hjálpað en sé um dýpri bólur eða kýli að ræða þarf oft að grípa til lyfjameðferða með öðrum lyfjum.
Síðustu áratugi hafa laserar í lækningastarfsemi verið notaðir við bæði rósroða og æðasliti. Þeir hafa gert kraftaverk varðandi æðarnar bæði í rósroða og æðasliti. Hvað varðar rósroða hafa þeir minnkað mikið roðann og mjög oft hjálpað bæði varðandi bruna- og pirringstilfinninguna og yfirborðsbólurnar.

Eru þessir laserar mismunandi?

Já, því það eru til mismunandi gerðir lasera og krafturinn er mismikill í þeim. Það er mjög mikilvægt að sjá til þess að maður fái meðhöndlun með alvörulaser eins og þeim sem seldir eru til lækningastarfsemi. Það tryggir best öryggi og meðferðarárangur og að því virðist án aukins heildarkostnaðar við meðferðirnar.

Hversu mörg meðferðarskipti þarf með laserum varðandi bæði rósroða og æðaslit?

Með nútíma lasertækni þarf oft milli 5 og 10 skipti til að ná æðunum vel niður sama þótt því sé stundum flaggað að færri meðferðir þurfi til. Ég hef fylgt sjúklingum með rósroða og fólki með æðaslit eftir meðferðir á Íslandi í 13 ár og hef ég aldrei gert aftur laser á einum einasta sjúklingi sem hefur klárað sína meðferð. Það er þó ljóst að vænta má að líffræðilegur munur sé á milli einstaklinga.

Þú talar um lasera á læknastofum en hvernig er með lasera á snyrtistofum þar sem læknar eru jú ekki til staðar?

Það er athyglisvert ástand á Íslandi. Löggjafinn verður að teljast svolítið hægur. Í Danmörku sem dæmi var sett reglugerð árið 2007 sem heimilar ekki einu sinni almennum læknum not lasera eins og algengir eru á snyrtistofum á Íslandi til að eyða æðum, hárum eða húðflúri heldur er krafist sérfræðimenntunar í húð- og kynsjúkdómum.
Þetta er tilkomið til að tryggja sem best rétta greiningu og meðferð, hver svo sem hún er. Reglugerðinni er einnig ætlað að tryggja að framkvæmd lasermeðferða sé eins örugg og hægt sé til að aftra ýmiss konar aukaverkunum ekki síst örum, sýkingum og augnsköðum svo sem blindu. Aukaverkanir eru sjaldgæfar sé rétt haldið á málum en verði vart við þær er mikilvægt að læknir sem stýrir lasermeðferðunum grípi strax inn í.

Sér mikið á fólki eftir lasermeðferðir og eru þær sársaukafullar?

Það sér ekki mikið á fólki því strax að loknum meðferðum er húðin kæld niður með sérstökum búnaði. Vænta má vægs roða eingöngu á meðan fólk vistast á meðferðarstaðnum.
Hér áður fyrr gátu lasermeðferðir verið sársaukafullar. Þetta er liðin tíð með nútímatækjabúnaði og sé rétt á málum haldið. Hluti þeirra sem fær lasermeðferðir í andlit eru börn með háræðastjörnur sem trufla þau. Kvartanir vegna sársauka eru mjög óvanalegar hjá þeim.

Hvað eru þessar háræðastjörnur?

Þær myndast vegna æðar sem kemur lóðrétt upp í yfirborð húðarinnar og myndar minni æðar lárétt í kringum sig.

Kvennablaðið vill benda á frekari fræðslu um þetta efni á heimsíðu Útlitslækningar.

Ljósmynd efst í grein eftir: DANIEL WARD tekin af vef Allure.com

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út