Skip to main content

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu þann 4. des. 2015: Grein af Vísir.is

„Hingað kemur fólk með húðflúr sem það er orðið þreytt á eða verður að reyna að eyða, til dæmis með nafni liðinnar ástar,“ segir Bolli Bjarnason húðlæknir hjá Útlitslækningu sem fjarlægir húðflúr með sérstökum húðflúrslæknalaserum.

Bolli segir erlendar kannanir sýna að allt að fjórðungur fólks hafi eitt eða fleiri húðflúr og þess sé að vænta að Ísland sé engin undantekning.

Húðflúr sé í tísku. 

„Að sama skapi koma sífellt fleiri til mín og vilja láta fjarlægja húðflúrið. Fólk virðist hafa áttað sig á að unnt er með nútímalæknalaserum að fjarlægja húðflúr með algjörri lágmarksáhættu á öramyndun sem var vandamál hér áður fyrr.“

Ekki tekst alltaf að fjarlægja allt húðflúrið heldur eingöngu draga úr lit þess.

Sumir vilja eingöngu draga úr lit til að flúra yfir með nýju húðflúri.

Aðrir þurfa að deyfa húðflúr því staðsetning á því vegna atvinnu er ekki samþykkt af vinnuveitanda.

Best er að fjarlægja svartan lit en erfiðast er að fjarlægja gulan, appelsínugulan og grænan lit.

Í öllum tilfellum þarf nokkrar meðferðir til að árangur náist.

Í Fréttablaðinu í gær var fjallað um húðflúrara sem flúra án starfsleyfis frá heilbrigðiseftirlitinu.

Bolli segir húðflúrun ekki hættulausa og að sumar aukaverkanir geti komið fram hvernig sem staðið sé að flúrinu.

„Húðflúr getur leitt til örmyndana, sýkinga og myndunar húðsjúkdóma hafi fólk húðsjúkdóma fyrir. Það getur truflað segulómanir og ætti því aldrei að setja það á höfuð. Einnig geta húðflúr leitt til bólgu, eymsla og kláða sem getur verið viðvarandi. Ég hef þurft að fjarlægja húðflúr vegna ofnæmiseinkenna,“ segir Bolli.

Hann bætir við að rannsókn í Danmörku hafi sýnt 62 prósent vera vegna rauðs litar og 20 prósent vegna svarts. Blá, græn og svört húðflúr valda síður ofnæmi.

Húðflúrsblek geta líka innihaldið mögulega krabbameinsvaldandi efni. Bolli segir vandamál að stundum sé uppruni bleksins hvorki þekktur af húðflúrara né þeim sem fær flúrið. Í gær kom fram að íslenskir húðflúrarar með starfsleyfi fái liti sem samþykktir eru í Bandaríkjunum. En hver sem er getur pantað ódýra liti af netinu.

„Mér skilst að framkvæmdastjórn ESB sé að koma með drög að reglum til að taka heildstætt á litum sem notast í Evrópu, sem er gott mál.“

 

Sjá einnig:

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út