Skip to main contentEftirfarandi grein birtist í aukablaði Íslensks iðnaðar í okt. 2007 (1. tbl. 13. árg. bls. 4):

Andlitslýti vegna hrukkna og fellinga

„Mér finnst ég eitthvað svo “dull” í framan en átta mig ekki alveg á hvað það er. Heldurðu að þú getir gert eitthvað fyrir mig?”

Þessi spurning hljómar nær daglega í eyrum snyrtifræðinga og okkar húðlækna og samvinnu er oft þörf.

Eitt af því sem ég geri mikið af í mínu starfi er að meðhöndla hrukkur í andliti fólks eða að grynnka eða fjarlægja áberandi fellingar. Eins og við vitum er flestum mjög umhugað um útlit sitt hvort sem þeir viðurkenna það eða ekki og útlit manna hefur oft áhrif á sjálfstraust þeirra. Sífellt fleira og yngra fólk kemur í slíka meðferð.

Hrukkur verða til fyrst og fremst fyrir áhrif sólarinnar. Hún brýtur niður stinnleikann í húðinni sem slappast með þeim afleiðingum að hrukkur myndast eða fellingar verða meira áberandi. Til að draga úr þessu er æskilegt að forðast sterka sól, klæða hana af sér eða nota sólarvörn.

Innihald hrukkukrema er misjafnt. Það er helst að krem, sem innihalda vissar Avítamínsýruafleiður, hjálpi til að fyrirbyggja hrukkumyndun en rannsóknir hafa einnig sýnt að nokkur önnur efni virka. Gallinn við margar slíkar rannsóknir er að þær eru oft gerðar fyrir framleiðendur kremana og geta því ekki talist áreiðanlegar. Mörg krem innihalda lítið magn virkra efna eða efni sem eru ekki vænleg til að fyrirbyggja hrukkur.

Oft er erfitt fyrir fólk að átta sig á útlitsbreytingum eins og hrukkum sem koma smátt og smátt því að það lítur í spegil daglega og venst þannig breytingunum dag frá degi. Oft kemur fólk til að meðferð vegna tiltekinna hrukkna en það hefur oft einnig aðrar hrukkur sem það hefur ekki komið auga á en hafa veruleg áhrif á útlit þess. Stundum hefur það einnig djúpar fellingar sem myndast þegar húðin slappast, t.d. frá nefi niður að munnvikum en meðferð þeirra hjálpar oft mjög útlitslega, sérstaklega þegar fellingarnar eru ekki eins báðum megin. Fellingar eða hrukkur, sem myndast niður frá munnvikum, valda hvað mestum útlitsbreytingum og hafa tilhneigingu til að mynda fýlusvip sem fólk áttar sig stundum ekki á hvernig er til kominn. Meðferðin snýst þá ekki eingöngu um að fjarlægja hrukkurnar og fellingarnar heldur einnig, í mörgum tilvikum, að lyfta munnvikunum lítillega. Auk fyrrgreindra ástæðna kemur fólk oft í meðferð við hrukkum sem ganga í gegnum varalínurnar og inn í varirnar en slíkar hrukkur verða oft mjög áberandi þegar varalitur hefur verið borinn á varirnar. Meðhöndlun á hrukkunum og skerping á varalínum gjörbreyta oft útlitinu. Eftirsótt er að auka rúmmál vara einkum þegar efri vörin er mjög þunn. Stundum kemur fólk vegna áberandi ennishrukkna eða vegna hrukkna milli augabrúna eða út frá augum.

Meta þarf hvert tilfelli gaumgæfilega

Oftast vill fólk láta grynnka hrukkurnar án mikilla andlitsbreytinga og mér finnst það eins eðlilegt og að nota snyrtivörur. Markmið hvors tveggja er auðvitað að bæta útlitið. Það er ótrúlegt hve margar konur eru ennþá tregar til að láta lagfæra andlit sem þær eru óánægðar með meðan siðlausir postular hamra á að slíkar meðferðir séu hégómlegar. Hér á landi felst ein eftirsóttasta meðferðin við hrukkum og áberandi fellingum í að nota svokölluð fyllingarefni (e. fillers). Til eru margvísleg fyllingarefni en val þeirra fer eftir markmiði, hvar hrukkurnar eru og hve djúpar þær eru. Mjög algengt er að notaðar séu mismunandi1. tbl. 13. árg Aukablað Íslensks iðnaðar Október 2007 gerðir af Restylane sem inniheldur hyaluróniksýru en hún er ríkur þáttur í millifrumuefni húðarinnar. Reynsla og þekking þess, sem veitir slíka meðferð, vegur mjög þungt og ég hef fengið til mín fólk með varanlegan húðskaða eftir slíkar meðferðir. Það fólk kvartar oft einnig undan sársauka samfara þeirri meðferð sem það hlaut því að efninu er sprautað í húðina en auðvelt er fyrir lækna að deyfa húðina vel með kremi fyrir meðferð sem fólk þolir mjög vel. Sumt fólk er tregt til að láta grynnka hrukkur sínar því að það veit ekki á hverju það má eiga von og of mikil breyting gæti kallað á neikvæð  viðbrögð frá umhverfinu. Æskilegt er að gefa sér góðan tíma og gera margar þessara meðferða í tveimur þrepum til að ofgera ekki og hafa  viðkomandi með í ráðum með spegilinn á lofti. Í fyrra þrepinu er sett inn hæfilegt magn af efninu en í seinni meðferðinni er fínpússað eftir því sem þurfa þykir. Ég segi stundum að ekki sé hægt að fjarlægja það efni sem sett hefur verið í en alltaf megi bæta efni við. Meðferðin endist yfirleitt í 6 mánuði til tvö ár en tímalengdin fer bæði eftir efninu og hversu hratt líkaminn brýtur það niður. Ég sinni mjög stórum hópi fólks sem kemur í slíkar meðferð á árs fresti og flestir koma vegna upplýsinga frá öðrum sem verið hafa í meðferð. Færst hefur í vöxt að yngra og yngra fólk komi í slíka meðferð og haldi niðri hrukkunum sem ná þá ekki að dýpka.

Botox® er bakteríueitur, sem notað er í læknisfræði í margs konar tilgangi en eitrið, lamar taugar tímabundið. Sjálfur nota ég Botox® mest í holhendur við óhóflegri svitamyndun þar sem það hefur reynst frábærlega. Flestum dettur í hug hrukkur þegar þeir heyra minnst á Botox ® en sú frægð kemur frá Bandaríkjunum því að þar var lengi vel ekkert annað bitastætt til því að þarlend heilbrigðisyfirvöld voru mjög lengi treg til að samþykkja fyllingarefni. Botox® á vel við þegar um er að ræða hrukkur milli augnabrúna og reynslan er mikil í því efni. Það hefur einnig verið notað annars staðar og þá aðallega við hrukkum á enni og út frá augum. Þar sem Botox® á við finnst mér það ná hrukkum mjög vel en gallarnir eru einkum þeir að það endist eingöngu í u.þ.b. fjóra mánuði og kostnaðurinn er meiri borinn saman við fyllingarefni eins og Restylane. Sjúklingar, sem eru meðhöndlaðir með Botox®, þurfa að fá góðar upplýsingar um meðferðina og hvers vænta má því við meðferðina eru lamaðir litlir vöðvar sem valda því að ekki er hægt að gretta meðhöndlað húðsvæði þegar viðkomandi brosir.

Face-lift er aðallega æskilegt þegar mikill slappleiki er í húðinni samfara áberandi fellingum en margir telja það of mikið inngrip.

Til eru önnur meðferðarform en þau, sem ég hef minnst á, en minna notuð við hrukkum og fellingum. Stundum fæ ég til mín fólk sem hefur margsinnis fengið grunna húðslípun (e. microdermabrasion) við hrukkum án árangurs og mín reynsla er að slík slípun hjálpi ekki gegn hrukkum. Stundum kemur fólk vegna hrukkna en reynist svo vera með ör en þau meðhöndla ég oft með djúpri húðslípun.

Tvær dæmigerðar myndir fyrir og eftir meðferð með Restylane. Dökkhærða konan hefur gengið lengra í meðferð en hin en mikilvægt er að breyta ekki þeim andlitslínum sem fólk vill halda og er hluti af því sjálfu. Takið eftir hve mikil breyting felst í því að lagfæra fellingarnar sem ganga frá nefi niður að munnvikum í báðum tilvikum. Takið einnig eftir hvernig væg lyfting á hægra munnviki breytir svip sömu konu og hvernig skerping varalínanna eykur mýkt varanna.

Fyrir:
Eftir:
mynd-1-fyrir
mynd-1-eftir

Bolli Bjarnason dr. med. húð- og kynsjúkdómalæknir

Greinarhöfundur kennir húðsjúkdóma við læknadeild Háskóla Íslands. Hann rekur lækninga og meðferðarstofu hjá Útlitslækningu ehf. í Kópavogi. Hann er formaður Félags íslenskra húðlækna

Nálgast má greinina rafrænt á netslóðinni:
http://www.si.is/media/pdf/islenskur-idnadur/2007-10-fisf.pdf

Af athygli kunna einnig að vera greinarnar:

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út