Skip to main content

Ör (innfallin eða útstandandi)

Meðferðir gegn örum 

Ör geta verið innfallin eða útstandandi, húðlituð eða lituð. Ólíkum meðferðum er beitt eftir tilfellum og stundum er fleiri en einni meðferð beitt í einu. 

 

Meðferðarúrræði í boði

 • Unnt er að beita lasertækjum og hátíðnirafsegulbylgjum gegn örum
 • Meðferðirnar endurnýja kollagen húðarinnar en við það stinnast örin og sléttast
 • Þær eru sársaukalausar og unnt er að fara beint til vinnu á eftir
 • Útstandandi ör krefjast fyrst formeðferðar

Hvernig bóka ég meðferð gegn örum?

 • Við mælum með tíma hjá húðlækni til að tryggja rétta greiningu og viðeigandi meðferð
 • ATHUGIÐ að til eru meðferðaraðilar á Íslandi án nauðsynlegra leyfa sem krefja viðeigandi sérfræðimenntunar umsjónalæknis
 • Þú getur hringt í okkur til að fá tíma hjá húðlækni eða beint til meðferðar

 

Frekari upplýsingar

Ör geta verið mjög fjölbreytt að útliti og gerð. Þau geta verið innfallin eða útstandandi, húðlituð eða lituð. Meðferð þeirra kallar á þekkingu sérfræðilæknis því mjög ólíkum meðferðum er beitt eftir tilfellum og stundum fleirum saman til að ná sem bestum árangri. Vanþekking getur gert ör miklu verri.

Hvað er ör?

Ör er bandvefur (connective tissue) eftir gróanda líkamlegs skaða.

Gerðir húðöra

Ýmsar flokkunaraðferðir eru til. Hér verða húðör flokkuð í tvennt:

Innfallin ör vegna visnunar (atrophic scars)

Hér rýrnar einfaldlega húðvefur sem fyrir er. Nokkrar ástæður geta verið fyrir þessu svo sem bruni, hlaupabóla (varicella zoster) og þrymlabólur.

Myndband

Grein

Oft er talað um þrenns konar inndregin ör hvað þrymlabólur varðar:

1. Ísnálarör (icepick scar)

Þessi ör eru kennd við ísnál ísaxar. Þau eru þröng (<2 mm), djúp með lítið op á yfirborði húðarinnar sem gengur lóðrétt inn í leðurhúðina (dermis) og stundum niður í húðbeðinn (subcutaneous tissue) sem er fitulag undir leðurhúðinni. Efri hluti þessara öra er yfirleitt breiðari en dýpri hlutinn og þannig mjókkar örið frá yfirborðinu að dýpsta hluta þess neðar í húðinni.

2. Bogadregið ör (rolling scar)

Ör af þessari gerð verða til vegna togs á yfirborðinu frá leðurhúðinni en húðin lítur annars eðlilega út. Þessi ör eru oft breiðari en ísnálarörin, eða 4-5 mm. Trefjastrengir frá leðurhúð niður í húðbeðinn (subcutis) leiða til þess að húðin verður bogadregin á yfirborðinu.

3. Lestarvagnsör (boxcar scar)

Örin eru kennd við lestarflutningavagna vegna lögunar þeirra inni í húðinni þegar horft er á þau 90° á hlið. Þau eru hins vegar hringlaga eða sporöskjulaga (oval) þegar horft er ofan á húðina. Þau eru lóðrétt og vel aðgreind frá aðliggjandi húð. Borin saman við ísnálarör eru þau breiðari á yfirborði og dragast ekki inn í odd dýpra inni í húðinni. Þessi ör eru oft 1,5 – 4 mm í þvermál. Þeim er gjarnan skipt í grunn ör sem eru frá 0,1 mm – 0,5 mm að dýpt og í djúp ör sem eru ≥0.5 mm að dýpt.

Útstandandi ör (Hypertrophic scar og keloid)

Hér verður bandvefurinn (connective tissue) meiri að umfangi en líkamlegi vefurinn sem varð fyrir skaða. Fyrir utan ástæður sem nefndar voru varðandi innfallin ör geta komið til ástæður eins og slys, aðgerðir, sýkingar og langvarandi bólgur. Tvær gerðir þessara öra eru til:

1. Vefjaaukaör (hypertrophic scar)

Hér eru á ferðinni ör sem er sýnilegt og oft lítillega upphækkað án þess að ganga inn í nærliggjandi vefi.
Þessi gerð öra gefur sig stundum af sjálfu sér með tímanum.

2. Örbrigsli (keloid)

Þessi ör eru sams konar og vefjaraukaörin fyrir utan það að þau eru meiri að umfangi og standa verulega upp úr húðinni. Þau eru algengust hjá svertingjum og fólki af asískum uppruna.

Vandamál tengd örum

Meðal algengustu vandamála sem geta tengst örum má nefna:

 • Útlitslýti örsins sem slíks
 • Skuggamyndun í innföllnum örum falli birta á þau, sérlega á hlið, sem gerir þau meira áberandi
 • Roði og blámi
 • Litamunur, sem getur verið vanlitun (hypopigmenation) en oftar oflitun (hyperpigmentation)
 • Verkir vegna togs eða þrýstings
 • Kláði við gróanda
 • Bólgur
 • Viðkvæmni við snertingu
 • Takmörkuð hreyfigeta
 • Andlegir þættir

Hvað er til ráða?

Meðferðir öra fara eftir mörgum þáttum og geta þær verið mjög ólíkar milli sérfræðilækna. Meta þarf hvert tilfelli fyrir sig af sérfræðilækni m.t.t. að veita bestu mögulegu meðferð. Mjög oft er um að ræða blöndu ólíkra meðferða á ólíkum tímum til að ná sem bestum árangri. Vanþekking og röng meðferð getur gert ör miklu verri.

Lasermeðferð gegn örum

Velja þarf læknisfræðilega viðeigandi laser eftir gerð öranna.

Við beitum svokölluðum „fractional“ laserum sem fjallað er um hér.

Sérfræðilæknir þarf að meta fyrir meðferð hvort læknisfræðilegar ástæður eða aðrar ástæður hamli meðferð.

Hver er verkunarháttur fractional lasera?

Laser er ljósorkugjafi. Hefðbundnir laserar sem notaðir eru til húðmeðferða baða allt húðsvæðið með laserljósi. Þegar laser er sagður vera fractional (íslenska: brot) er átt við að laserljósið baði eingöngu hluta húðsvæðisins með laserljósi. Fractional laserljósi er yfirleitt dreyft á staka staði yfir allt húðsvæðið. Eðlileg húð á milli staðana gerir mögulegt að gefa meiri ljósorku í fractional laserljósinu en ella því ef allt svæðið yrði fyrir slíkri ljósorku myndi húðin ekki þola hana.

Laserljósinu er ætlað að hnjaska leðurhúðina þar sem geislinn fer inn í húðina en eðlileg húð í kring flýtir “viðgerð” á hnjaskinu. Slík viðgerð hvetur til myndunar nýs kollagens og bætir örið.

Til eru tvær megingerðir fractional lasera. Annars vegar „ablative“ laser sem losar yfirborð húðarinnar frá undirlaginu og hins vegar „non-ablative“ laser sem gerir það ekki.

Vissar takmarkanir gilda varðandi hvaða húðsvæði geta meðhöndlast með fractional laserum. Val búnaðar og beiting hans kallar á þekkingu sérfræðilæknis.

Dökk húð þolir fractional laser betur en hefðbundinn laser.

Hvers er að vænta af meðferð?

Fractional laserar eru mjög öflug tæki sem má vænta að skili verulegum árangri.

Aðgerðir fyrir og eftir lasermeðferð

 • Forðast skal sólarljós í a.m.k. 4 vikur fyrir og eftir meðferð. Sólarlandaferðir eða meðferð á sólbaðsstofu eru bannaðar á meðan á meðferð stendur og í 2 mán. eftir að henni lýkur.
 • Sólartengdur roði eða brúnka þarf að hafa horfið algjörlega fyrir hvert meðferðarskipti.
 • Brúnkukrem þurfa að hafa horfið algjörlega úr húðinni fyrir meðferð. Brúnkukrem eru bönnuð fyrstu vikuna eftir meðferð með ablative laser.
 • Æskilegt er að húðin verði ekki fyrir miklum hita rétt fyrir og eftir meðferð t.d. með heitum böðum.
 • Mikilvægt er að ekki séu til staðar sár eða sýkingar í húðinni svo sem mikið af þrymlabólum. Sérfræðilæknir metur ástand húðarinnar fyrir meðferð.
 • Sérfræðilæknir tekur afstöðu til hvort útvortis eða innvortis lyfjameðferð þurfi að stöðvast á meðan á meðferð stendur.

Hvernig fer meðferðin fram?

Meðferðarsvæðið er hreinsað. Laserhausinn er færður til frá einum stað til annars eftir ákv. reglum. Hefðbundin andlitsmeðferð tekur 5-15 mín. Að henni lokinni er húðin kæld með sérstökum kælibúnaði.

Hve langt er milli meðferða og hve margar meðferðir þarf?

3-8 vikur eru látnar líða milli meðferða. Lengri tímamörkin eiga yfirleitt við ablative lasera. Fjöldi meðferðarskipta þegar notaður er non-ablative laser er mjög misjafn eftir laserum, meðferðarsvæðum og einstaklingum en er oft 2-4 skipti fyrir ablative lasera.

Hvenær kemur árangur meðferðar fram og hve lengi varir hann?

Árangur kemur fram hægt og rólega. Árangurinn er varanlegur.

Kostir lasermeðferðar

 • Lasermeðferðir eru sársaukalitlar með þeim búnaði sem við notum. Þær eru mjög áhættulitlar.
 • Unnt er að fara beint til vinnu að lokinni meðferð.

Gallar lasermeðferðar

 • Non-ablative laserar valda roða sem gengur yfirleitt yfir á nokkrum klukkustundum. Hægt er að nota farða strax eftir meðferð. Ablative laserar geta valdið roða og sýnilegum ummerkjum í lengri tíma svo sem í 3-4 vikur. Oft gengur þó að farða yfir meðferðarsvæðin u.þ.b. viku eftir meðferð.
  Mikilvægt er að öll ummerki hafi gefið sig áður en farið er í sól. Sé það ekki gert er mögulegt að fram komi litamunur í húðinni sem getur tekið svolítinn tíma að hverfa. Stundum gefur liturinn sig ekki alveg.

Flestir finna fyrir vægum sting á meðan á meðferð stendur. Fyrir kemur að húðin sé deyfð fyrir meðferð með deyfikremi.
Allir laserar geta mögulega valdið örum en þau heyra til algjörra undantekninga. Mjög óvanalegt er að fólk fái svokallað ”dauft mynstur” (faint patterning) eftir ablative lasera. Dauft mynstur birtist með litlum opum inn í húðina sem álitin eru gefa sig á nokkrum mánuðum.
Önnur jákvæð áhrif fractional lasera og ELOS meðferðar (um þá meðferð er fjallað hér fyrir neðan).
Aukalegur ávinningur sem hlýst af báðum þessum meðferðum er m.a. að:

1. Stinna andlitshúðina og þétta hana

Þetta fyrirbyggir og vinnur gegn slappleika í húðinni sem myndar hrukkur og áberandi fellingar. 

2. Eyða áberandi fellingum og hrukkum

Myndband

Greinar

3. Eyða litlum línum

4. Jafna yfirborð húðarinnar

5. Vinna gegn sólskaða

Myndband

Greinar

Þessar aðferðir eru einnig notaðar:

 • Gegn húðsliti

Myndband

Greinar

 

Notkun lasera er örugg í réttum höndum. Hún krefst umsjónar eða meðferðar sérfræðilæknis sem getur TAFARLAUST gripið inn í verði vart við aukaverkanir.

ÖRYGGISVIÐVÖRUN!
AF ÖRYGGISÁSTÆÐUM ER LASERMEÐFERÐ Í FEGRUNARSKYNI BÖNNUÐ Á ÍSLANDI ÁN AÐKOMU LÆKNIS MEÐ VIÐEIGANDI SÉRFRÆÐIMENNTUN SVO SEM HÚÐLÆKNIS EINS OG KRAFIST ER Í DANMÖRKU. TIL ERU ÓLÖGLEGIR HEILBRIGÐISSTARFSMENN SVO SEM LÆKNAR EÐA HJÚKRUNARFRÆÐINGAR SVO OG SNYRTIFRÆÐINGAR MEÐ SLÍKA STARFSEMI.

Örnálameðferð (microneedling)

Þessi meðferð beitir míkrónálum á örin (microneedling). Hugmyndin er að valda hnjaski í leðurhúðinni með litlum nálum á svipaðan hátt og fractional laserar gera með ljósorku (sjá að ofan í kaflanum „Lasermeðferð gegn örum“). Sjá nánar um örnálameðferð.

Meta þarf hvert tilfelli af sérfræðilækni. Til greina kemur að beita fractional laserum (sjá að ofan) í staðinn fyrir örnálar og þá sérstaklega CO2 ablative fractional laserum sem eru stillanlegir fyrir stærð öranna. Þegar CO2 ablative fractional laserar eru notaðir þannig er mjög óvanalegt að þeir valdi þeim sýnilegu ummerkjum sem um er fjallað að ofan í kaflanum „Lasermeðferð gegn örum“.

Míkrónálun hefur verið þróuð áfram og hefur hún verið reynd samtímis með útvarpsbylgjum (bipolar radiofrequency) en bygjurnar eru önnur af tveimur uppistöðum meðferða með ELOS® (Functional Aspiration Controlled Electrothermal Stimulation) tækni (sjá fyrir neðan). Ástæða samkeyrslu þessara meðferða er að ná útvarpsbylgjunum betur inn í leðurhúðina. Útvarpsbylgjur eru einnig notaðar í tækni sem kallast FACES (Functional Aspiration Controlled Electrothermal Stimulation) en sú tækni byggir á púlssogi (pulsed vacuum) fyrir utan útvarpsbylgjurnar.

Yfirlitsgrein um meðferð öra vegna þrymlabóla hafa sýnt ablative fractional lasera vera öflugasta gegn örum en non-ablative fractional laserar koma þar á eftir. Vænta má síðri árangurs af útvarpsbylgjum og míkrónálun saman en þó betri en af útvarpsbylgjum einum sér. Í yfirlitsgreininni voru áhrif af ELOS eða FACES þó ekki metin (Vísindagrein: Kravvas G og Al-Niaimi F: A systematic review of treatments for acne scarring. Part 2: Energy-based techniques. Scars Burn Heal. 2018 Jan-Dec; 4.).

Meðferð með ELOS (Electro Optical Synergy)

Þessi aðferð er notuð í völdum tilfellum til þess að vinna bug á innföllnum örum.

Verkunarháttur

ELOS byggir á tvennu. Annars vegar gjöf tvískauta útvarpsbylgja sem mynda hátíðnirafsegulorku (high-frequency electromagnetic energy) sem leiðir til myndunar hita er bylgjurnar mæta mótstöðu húðarinnar. Hins vegar byggir ELOS á hitagjöf samtímis ljósorku en í okkar búnaði er ljósorkan veitt með innrauðum laser (infra-red laser). Fyrir utan ELOS veitir okkar búnaður einnig púlssog (pulsed vacuum).

Bylgjurnar eru álitnar auka flæði súrefnis til fruma með því að hita fituvef húðarinnar 5-15 mm niður í húðina. Laserinn er álitinn auka teygjaleika (elasticity) húðarinnar en hann nær u.þ.b. 5 mm niður í húðina. Hiti með báðum þessum orkugjöfum er álitinn fá kollagenið til að skreppa saman og þykkna sem dregur úr örum. Hitinn og púlssogið er álitið leiða til nýmyndunar kollagens í trefjakímfrumum (fibroblasts) og óbeint með auknu blóðflæði.

Almennt um meðferðina

Hitinn er sársaukalaus og mörgum finnst meðferðin eins og þægilegt nudd. Roði við meðferðina hverfur á nokkrum mínútum. Óvanalegt er að það þurfi að nota farða strax eftir meðferðir en það er heimilt. Samhliða meðferð á sólbaðsstofu er ekki leyfð. Heimilt er að vera í sól en ekki er gott að roði og brúnka séu til staðar við meðferð. ELOS þolist vel óháð litarhætti. Meðferðir eru framkvæmdar eins og þurfa þykir á 7-10 daga fresti en þó má líða lengra á milli meðferða. Það tekur nokkur skipti að sjá árangur.

ELOS hefur fleiri jákvæð áhrif á húðina. Sjá kaflann „Önnur jákvæð áhrif fractional lasera og ELOS meðferðar“ í kaflanum „Lasermeðferð við örum“ hér að ofan.

Húðslípun (microdermabrasion)

Þessi aðferð er notuð í völdum tilfellum eftir mat sérfræðilæknis til þess að vinna bug á innföllnum örum, sérstaklega ísnálarörum og örum sem eru rauð eða rauðblá. Henni er oft beitt með ELOS meðferðinni hér að ofan.

Um er að ræða óhefðbundna húðslípun.

Verkunarháttur

Ekki er vitað nákvæmlega hvernig húðslípun virkar í leðurhúðinni en vitað er að hún virkjar svokallaða „matrix metalloproteinasa“ sem geta brotið niður kollagen og auðveldað endurmótun á leðurhúðinni. (Sjá nánar vísindagrein Karimipour DJ et al: Microdermabrasion: A molecular analysis following a single treatment. J Am Acad Dermatol 2005;52:215-23). Heildaráhrifin eru að húðin stinnist, örin hækka upp eða þrengjast og roði eða blárauður litur gefur sig.

Almennt um meðferðina

Sogi með neikvæðum þrýstingi er beitt á örin. Roði hlýst af þessu sem jafnar sig á nokkrum dögum. Hægt er að nota farða yfir roðann. Þessar meðferðir eru algjörlega sársaukalausar og eru endurteknar á 3ja vikna fresti eins oft og þurfa þykir.

Árangur kemur ekki fram fyrr en eftir nokkur skipti.

Þessari aðferð er stundum beitt við meðferð húðslita. 

Myndband

Greinar

Grein um húðslípun

Innspýting með lyfi

Þessi aðferð er notuð gegn vefjaaukaörum og örbrigslum þegar við á.
Meðferðin kann að leiða til nýæðamyndunar og roða sem getur kallað á eftirmeðferð með laser (sjá hér að neðan) eða mögulega húðslípun (sjá hér að ofan) eftir tilfellum. Stundum er frystingu beitt samhliða lyfjainnspýtingum (sjá hér að neðan).

Frysting

Frysting er notuð til að vinna bug á vefjaaukaörum og örbrigslum í völdum tilfellum.
Til frystingar er notað fljótandi köfnunarefni (liquid nitrogen).

Verkunarháttur

Álitið er að frysting brjóti örin niður með a.m.k. tvennum hætti. Annars vegar með beinum óafturkræfum skaða á frumur vegna kuldans og hins vegar vegna áhrifa á blóðæðakerfið sem leiðir til frumuskaða vegna blóðþurrðardreps (ischemic necrosis) þegar vefurinn þiðnar. Auk þess er aðkomu ónæmiskerfisins velt upp. (Sjá vísindagrein: Zouboulis CC: Principles of Cutaneous Cryosurgery: An Update. Dermatology; 1999;198(2):111-7). Frysting hentar ekki fólki með dökka húð.

Meðferð

Meðferð er oft samhliða innspýtingum með lyfi (sjá að ofan) en þarf ekki að vera það.

Undirskurður (subcision)

Undirskurður er aðallega notaður til að rífa upp strengi í örinu innan frá með sérstakri nál.

Stönsun (punching)

Stönsun byggir á að skera með litlum hringskera í kringum örið og fá það til að þess að skjótast upp. Þá taka við a.m.k. 2 mögulegar aðferðir. Annars vegar að fjarlægja örið með aðg. og saum. Hins vegar að líma örið í húðhæð og láta það gróa þannig. Þá er það slípað djúpt niður í blóðæðar efst í leðurhúð með djúpri húðslípun (dermabrasion). Þessi aðferð kemur helst til greina við ísnálarörum.

Lasermeðferð gegn lit í örum

Stundum eru ör rauð eða blárauð af náttúrunnar hendi en liturinn getur einnig verið vegna nýæðamyndunar vegna innspýtingar með lyfi (sjá að ofan). Liturinn er tilkominn vegna blóðkorna í æðum.
Sum ör eru oflituð (hyperpigmentation) eða vanlituð (hypopigmentation).
Litur í örum skapar stundum meiri útlitslýti en örið sjálft.

Meðferð og verkunarháttur

Meta þarf hvert tilfelli af sérfræðilækni m.t.t. að unnt sé að ná besta mögulega árangri. Sé rauður litur til staðar þarf yfirleitt að beita lasermeðferð til að fjarlægja æðar, sérstaklega ef þær eru sýnilegar en húðslípun kemur til greina í völdum tilfellum.
Til meðferðar roða eru notaðir laserar með bylgjulengd sem rauður litur blóðkornanna dregur til sín. Þannig næst laserljósorka sértækt inn í æðarnar sem hnjaskar þær en við endurteknar meðferðir eyðast þær upp af átfrumum (macrophages).

Myndband

Greinar

Verkunarháttur er sá sami fyrir oflituð ör og fyrir æðar fyrir utan að yfirleitt er valin bylgjulengd sem svartur litur dregur til sín. Stundum er húðflúrslaserum beitt gegn litnum.

Myndband

Greinar

Útvarpsviðtal

Til greina kemur einnig lyfjameðferð eða míkrólitun (sjá hér fyrir neðan).

Grein um lasermeðferð gegn æðum

Míkrólitun (medical micropigmentation)

Ef ekki gengur að ná burtu oflitun í örum með laser eða lyfjum gæti míkrólitun komið til.

Fyrir míkrólitun er húðin deyfð með deyfikremi. Örin eru síðan flúruð (tattooing) með það að markmiði að fá fram eðlilegan húðlit. Þetta er sársaukalaus meðferð. Gæði lita skipta miklu máli og taka þarf tillit til litarháttar og undirtóns húðar. Þetta er mikilvægt til að forðast að aðrir litir komi fram við fölnun míkrólitunarinnar og þá einkum blár, grár, bleikur og appelsínugulur.

Oft þarf aðeins eina meðferð. Þurfi aðra meðferð er hún framkvæmd um 6 vikum síðar.

Sjá nánar um microlitun á http://www.micropigmentation.org.

Sjá einnig frekari fræðslu

Myndband

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

  * þýðir að þú þarft að fylla út