Skip to main content
Húðsjúkdómar

Laser til lækninga húðlýta og húðsjúkdóma

Eftir mars 22, 2013júní 7th, 2022Engar athugasemdir

Eftirfarandi grein eftir Dr. Bolla Bjarnason birtist í aukablaði Íslensks iðnaðar í sept. 2006 (1. tbl., 12. árg., bls. 7): 

Laser til lækninga húðlýta og húðsjúkdóma

Notkun lasers í húðlækningum eykst dag frá degi og tækjabúnaðurinn verður æ þróaðri. Sum húðvandamál leysast vel með laser en önnur eru óleysanleg með þeim hætti. Mitt á milli þessara tveggja póla eru tilfelli þar sem unnt er að beita ýmsum ólíkum meðferðaraðferðum, þar á meðan laser. Burt séð frá allri tækni nútímans skiptir mestu máli reynsla meðferðaraðila og val á réttum tækjabúnaði til að tryggja besta mögulega árangur.

Á hverju byggist laser?

Orðið laser kemur úr ensku og stendur fyrir Light Amplification by Stimulated Emission of Radiation. Allt er gert úr frumeindum umluktum svokölluðum rafeindum. Undir venjulegum kringumstæðum eru rafeindirnar í „hvíld.“ Komist rafeind í snertingu við ljóseind sem er í ljósi tekur hún til sín orku frá ljóseindinni og fer á hærra orkustig. Slík rafeind getur farið aftur í hvíldarstöðu en gefur þá frá sér ljóseindarorku (a photon of light energy) sem er jöfn þeirri orku sem hún fékk frá ljóseindinni. Ef ljóseindarorkan, sem rafeindin gefur frá sér fer til annarrar rafeindar sem hefur tekið til sín ljóseindarorku frá annarri ljóseind, getur sú síðarnefnda gefið frá sér tvöfalda ljóseindarorku ef hún fer í hvíldarstöðu. Ef þessi mögnun á sér stað mörgum sinnum fæst fram kröftugt ljós sem kallast laserljós.

Allir laserar byggjast á þremur grunneiningum:

A. Orkugjafa, t.d. lampa. B. Lasermiðli sem gefur rafeindirnar fyrir ljósmögnunina. Hann getur verið í loftfasa, fljótandi fasa, föstum fasa eða sem frjálsar rafeindir. C. Ljósholrými með tveimur speglum sem er utan um lasermiðilinn sem fær orku frá orkugjafanum. Lasermiðillinn ákveður bylgjulengd laserljóssins. Mismunandi litir í húðinni draga til sín laserljós af ólíkri bylgjulengd. Val bylgjulengda til meðferðar getur þannig byggst á lit þess meins sem er meðhöndlað. Sumir laserar byggjast þó ekki á þessu lögmáli heldur t.d. leysa upp og eyða vef, svíða hann eða skera.

Gagnlegar ábendingar

Listinn er langur yfir þær ábendingar þar sem hægt er að hugsa sér laser til húðlækninga. Meðferðir, sem felast í því að láta meinið draga til sín laserljósið, byggjast oft á bylgjulengdum sem rauður eða brúnn litur tekur til sín. Með bylgjulengd sem rauður tekur til sín er hægt að eyða æðum eins og t.d. í valbrá, æðasliti í andliti eða á ganglimum, rósroða og ýmiss konar góðkynja blóðæxlum. Eyðing slíkra æða í örbrigslum (keloids) eða ofholdgunum er álitin aftra myndun bandvefs í húðinni. Rauði liturinn í æðunum er til kominn af rauðu blóðkornunum sem draga til sín laserljósið en orkan berst síðan út í æðaveggina og veldur þar skemmdum. Lélegar æðar eyðast síðan. Með bylgjulengd, sem brúnn tekur vel til sín, er hægt að eyða meinum sem eru brún t.d. vegna melaníns sem sortufrumur framleiða. Háreyðing byggist einnig á vali á bylgjulengd sem brúnn litur tekur vel til sín. Hárin eru rökuð til að afmarka það svæði sem getur tekið ljósið til sín sem mest við hársræturnar. Hársrætur með svörtum eða mjög dökkbrúnum lit taka best til sín laserljósið en við það myndast orka í hárrótunum. Orkunni er ætlað að eyðileggja hárræturnar og mynda örvef til að að hár vaxi þar ekki aftur. Stundum er það sem er til meðhöndlunar ekki einlitt eins og t.d. húðflúr en val bylgjulengda við meðferð þeirra tekur mið af lit(um) þess. Verkunarháttur í meinum, sem meðhöndluð eru með laserum sem byggjast á að láta meinin draga til sín ljós, er stundum ekki kunnur til fullnustu. Dæmi um þetta er t.d. þegar laser er breytt til að herða húð sem hefur skaðast af langvarandi togi (striae) eins og t.d. eftir barnsburð. Endanleg verkun þar er álitin vera aukin myndun elastíns í húðinni. Unnt er að breyta aðferðum sem byggjast ekki á því að láta mein draga til sín laserljósið til margra nota. Koldíoxíðlaser er unnt að stilla á ýmsan hátt og láta hann þannig leysa upp vef (t.d. eyða yfirborðskenndum litabreytingum), svíða hann (t.d. fjarlæga vörtur eða góðkynja húðæxli) eða skera húðina (t.d. húðmein eða stór augnlok). Erbium:YAG laser er hægt að nota til að leysa upp vef á yfirborði húðarinnar en húðþekjan vex síðan yfir meðferðarsvæðið með nýjum heilbrigðum frumum. Þannig er unnt að meðhöndla sólskaða í húð og ör.

Hvers er að vænta af meðferð?

Mikilvægt er að gera fólki vel grein fyrir hvað stendur til boða varðandi ólík mein og hvers er að vænta af meðferð. Önnur meðferðarform en laser eru oft miklu ákjósanlegri og geta gefið bata fyrr, verið þægilegri, öruggari og ódýrari. Verði laser fyrir valinu sem byggist á að láta lit meinsins draga til sín laserljósið fer það mikið eftir tækjabúnaði og einstaklingnum sjálfum hversu margar meðferðir þarf til að ná góðum árangri. Það sama á við meðferðir þar sem leystur er upp vefur á yfirborði húðarinnar. Laser sem byggist á að svíða eða skera mein í burtu er oft hægt að nota til að eyða meininu í einni meðferð.

Greinina má nálgast á netslóðinni http://www.si.is/media/pdf/islenskur-idnadur/2006-06-FISF.pdf

Af athygli kunna að vera eftirfarandi skyldar greinar:

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út