Lasermeðferð gegn húðsliti
Húðslit eru mjög algeng og verða til þegar tog húðar er meira en hún ræður við, t.d. vegna hraðs vaxtar eða óléttu.
Húðslit eru í raun línuleg visnun og geta verið rauð, hvít, svört eða dökkblá eftir tilfellum.
Meðferðarúrræði við húðsliti
- Unnt er að beita lasertækjum og hátíðnirafsegulbylgjum gegn húðsliti
- Slíkar meðferðir endurnýja kollagen húðarinnar sem stinnist fyrir vikið
- Stundum er fleiri aðferðum bætt við til að fjarlægja roða eða bláma enn frekar
- Meðferðirnar eru sársaukalausar
Hvernig bóka ég meðferð?
- Við mælum með tíma hjá húðlækni til að tryggja rétta greiningu og viðeigandi meðferð
- ATHUGIÐ að til eru meðferðaraðilar á Íslandi án nauðsynlegra leyfa sem krefja viðeigandi sérfræðimenntunar umsjónalæknis
- Þú getur hringt í okkur til að fá tíma hjá húðlækni eða beint til meðferðar
Húðslit (striae eða stretch marks)
Húðslit eru mjög algeng og verða til þegar tog húðar er meira en hún ræður við, t.d. vegna hraðs vaxtar eða óléttu. Þau mynda rof í leðurhúðinni og stundum einnig áberandi litabreytingu. Meðferð kallar á mat sérfræðings og rétt val meðferða vegur þungt til að ná góðum árangri.
Hvað er húðslit?
Húðslit eru tilkomin vegna línulegrar visnunar (atrophy) í leðurhúðinni (dermis). Húðslitin birtast sem rákir á líkamanum.
Hvernig verður þetta til?
Húðslit verða til þegar togið í húðinni er meira en hún ræður við. Ástæður geta m.a. verið:
- Hraður vöxtur t.d. á vaxtarárum
- Hratt tog á kviðhúð undir lok meðgöngu er fóstrið vex hratt
- Sykurvirkir sterar útvortis eða innvortis sem aftra trefjakímfrumum (fibroblasts) frá því að mynda nauðsynlegt elasín og kollagen til að mæta togálaginu
- Heilkenni Cushing’s (Cushing’s syndrome) vegna ofstarfsemi nýrnahettabarkar (adrenal cortex)
- Vaxtarhormón (anabolic steroids)
Staðsetningar
Algengar staðsetningar eru:
- Læri, rass og brjóst hjá unglingum sem vaxa hratt
- Axlir hjá vaxtarræktarfólki
- Kviður og brjóst hjá óléttum konum
- Fitukeppir hjá fólki í yfirvigt
Lýsingar á húðslitum
Til eru ólíkar lýsingar á húðslitum eftir lit:
- Rauð húðslit (striae rubrae)
- Hvít húðslit (striae albae)
- Svört húðslit (striae nigrae)
- Dökkblá húðslit (striae caerulea)
Einnig eru til lýsingar á öðrum þáttum svo sem:
- Húðþenslurákir sem geta vísað til visnunar (striae atrophicans) eða togs (striae distensae)
- Þungunarrákir (striae gavidarum) sem vísa til þungunar sem ástæðu húðslitsins
Tíðni
Í vísindarannsókn voru konur skoðaðar strax eftir 1. barnsburð og reyndust 77% þeirra vera með húðslit (Tilvísun: J-Orh R et al.: Prevalence and associate factors for striae gravidarum. J Med Assoc Thai. 2008 Apr;91(4):445-51.). Í yfirlitsvísindagrein (review) var algengi (prevalence) þungaðra kvenna 43-88%, óþungaðra 35%, unglingsstúlkna 72-77%, unglingspilta 6-86% og fullorðinna karlmanna 11% (Tilvísun: Al-Himdani S et al.: Striae distensae: a comprehensive review and evidence-based evaluation of prophylaxis and treatment. Br J Dermatol 2014:170,527–547.). Striae distensae: a comprehensive review and evidence-based evaluation of prophylaxis and treatment
Vandamál tengd húðsliti
Húðslit geta truflað fólk verulega vegna áberandi visnunar húðarinnar í rákunum og einnig vegna litamunar sem hjá hvíta kynstofninum er oftast rauður eða hvítur. Skuggamyndun á sér stað og gerir rákirnar ennþá meira áberandi þegar ljós fellur á þær á hlið.
Hvað er til ráða?
Yfirlitsvísindagrein bendir á eftirfarandi: „Meta þarf sjúklinga gaumgæfilega m.t.t. sjúkrasögu, hvaða gerð slits sé um að ræða og húðgerð (skin type) sjúklingsins. Þrátt fyrir að sjúklingar hafi raunhæfar væntingar getur verið erfitt fyrir lækninn að finna góða meðferð. Það eru margs konar meðferðir til en enn sem komið er en engin ein sem virkar fullkomlega. Oft þarf margar meðferðir með ólíkum aðferðum sem ráðast á ólíka þætti í húðinni. (Tilvísun: „Lokhande AJ og Mysore V: Striae Distensae Treatment Review and Update. Indian Dermatol Online J. 2019 Jul-Aug; 10(4): 380–395.“).
Sjá einnig greinina:
Húðslit
Tvöfalt peel (double peel)
Peel
Rýr húð á handarbökum
Fellingar yfir bringubeini (décolletage)
Fellingar á hálsi
„Fractional“ lasermeðferð
Við beitum svokölluðum „fractional“ laserum sem fjallað er um hér.
Sérfræðilæknir þarf að meta fyrir meðferð hvort læknisfræðilegar ástæður eða aðrar ástæður hamli meðferð.
Hver er verkunarháttur fractional lasera?
Laser er ljósorkugjafi. Hefðbundnir laserar sem notaðir eru til húðmeðferða baða allt húðsvæðið með laserljósi. Þegar laser er sagður vera fractional (íslenska: brot) er átt við að laserljósið baði eingöngu hluta húðsvæðisins með laserljósi af fullum styrk. Fractional laserljósi er yfirleitt dreyft á staka staði yfir allt húðsvæðið. Eðlileg húð á milli staðana gerir mögulegt að gefa meiri ljósorku í fractional laserljósinu en ella því ef allt svæðið yrði fyrir slíkri ljósorku myndi húðin ekki þola hana.
Laserljósinu er ætlað að hnjaska leðurhúðina þar sem geislinn fer inn í húðina en eðlileg húð í kring flýtir “viðgerð” á hnjaskinu. Slík viðgerð hvetur til myndunar nýs kollagens og bætir örið.
Til eru tvær megingerðir fractional lasera. Annars vegar „ablative“ laser sem losar yfirborð húðarinnar frá undirlaginu og hins vegar „non-ablative“ laser sem gerir það ekki.
Vissar takmarkanir gilda varðandi hvaða húðsvæði er hægt að meðhöndla með fractional laserum. Val búnaðar og beiting hans kallar á þekkingu sérfræðilæknis.
Dökk húð þolir fractional laser betur en hefðbundinn laser.
Hvers er að vænta af meðferð?
Fractional laserar eru mjög öflug tæki sem má vænta að skili verulegum árangri varðandi að lyfta slitinu upp. Gegn rauðum eða blárauðum lit í húðslitinu beitum við öðrum aðferðum.
Aðgerðir fyrir og eftir lasermeðferð
- Forðast skal sólarljós í a.m.k. 4 vikur fyrir og eftir meðferð. Sólarlandaferðir og sólbaðsstofur eru bannaðar á meðan á meðferð stendur og í 2 mán. eftir að henni lýkur.
- Sólartengdur roði eða brúnka þarf að hafa horfið algjörlega fyrir hvert meðferðarskipti.
- Brúnkukrem þurfa að hafa horfið algjörlega úr húðinni fyrir meðferð. Brúnkukrem eru bönnuð fyrstu vikuna eftir meðferð með ablative laser.
- Æskilegt er að húðin verði ekki fyrir miklum hita rétt fyrir og eftir meðferð t.d. með heitum böðum.
- Sérfræðilæknir tekur afstöðu til hvort útvortis eða innvortis lyfjameðferð þurfi að stöðvast á meðan á meðferð stendur.
Hvernig fer meðferðin fram?
Meðferðarsvæðið er hreinsað. Laserhausinn er færður til frá einum stað til annars eftir ákv. reglum. Hefðbundin meðferð tekur um 15-30 mín. eftir umfangi. Að henni lokinni er húðin kæld með sérstökum kælibúnaði.
Hve langt er milli meðferða og hve margar meðferðir þarf?
4-6 vikur eru látnar líða milli meðferða með non-ablative laserum en 8 vikur með ablative laserum. Fjöldi meðferðaskipta þegar notaður er non-ablative laser er mjög misjafn eftir meðferðarsvæðum og einstaklingum en er oft 2-4 skipti með ablative laserum.
Hvenær kemur árangur meðferðar fram og hve lengi varir hann?
Árangur kemur fram hægt og rólega. Árangurinn er varanlegur.
Kostir lasermeðferðar
- Lasermeðferðir eru sársaukalitlar með þeim búnaði sem við notum.
- Þær eru mjög áhættulitlar.
- Unnt er að fara beint til vinnu að lokinni meðferð.
Gallar lasermeðferðar
- Non-ablative laserar valda roða sem gengur yfirleitt yfir á nokkrum klukkustundum. Ablative laserar geta valdið roða og sýnilegum ummerkjum í lengri tíma svo sem í 3-4 vikur.
- Mikilvægt er að öll ummerki hafi gefið sig áður en farið er í sól. Sé það ekki gert er mögulegt að fram komi litamunur í húðinni sem getur tekið svolítinn tíma að hverfa. Því hefur verið lýst að slíkur litur þurfi ekki að gefa sig fullkomlega.
- Flestir finna fyrir vægum sting á meðan á meðferð stendur. Fyrir kemur að húðin sé deyfð fyrir meðferð með deyfikremi.
- Allir laserar geta mögulega valdið örum en þau heyra til algjörra undantekninga.
- Notkun lasera er örugg í réttum höndum. Hún krefst umsjónar eða meðferðar sérfræðilæknis sem getur TAFARLAUST gripið inn í verði vart við aukaverkanir.
ÖRYGGISVIÐVÖRUN!
AF ÖRYGGISÁSTÆÐUM ER LASERMEÐFERÐ Í FEGRUNARSKYNI BÖNNUÐ Á ÍSLANDI ÁN AÐKOMU LÆKNIS MEÐ VIÐEIGANDI SÉRFRÆÐIMENNTUN SVO SEM HÚÐLÆKNIS EINS OG KRAFIST ER Í DANMÖRKU. TIL ERU ÓLÖGLEGIR HEILBRIGÐISSTARFSMENN SVO SEM LÆKNAR EÐA HJÚKRUNARFRÆÐINGAR SVO OG SNYRTIFRÆÐINGAR MEÐ SLÍKA STARFSEMI.
Örnálameðferð (microneedling)
Þessi aðferð byggir á beitingu míkrónála á slitið (microneedling). Hugmyndin er að valda hnjaski í leðurhúðinni með litlum nálum á svipaðan hátt og fractional laserar gera með ljósorku (sjá að ofan í kaflanum „Fractional lasermeðferð“). Sjá nánar um örnálanmeðferð.
Meðferð með ELOS (Electro Optical Synergy)
Þessi aðferð er notuð í völdum tilfellum gegn húðsliti.
Verkunarháttur
ELOS byggir á tvennu. Annars vegar gjöf tvískauta útvarpsbylgja (bipolar radiofrequency) sem mynda hátíðnirafsegulorku (high-frequency electromagnetic energy) sem leiðir til myndunar hita er bylgjurnar mæta mótstöðu húðarinnar. Hins vegar byggir ELOS á hitagjöf með ljósorku en í okkar búnaði er ljósorkan veitt með innrauðum laser (infra-red laser). Fyrir utan ELOS veitir okkar búnaður einnig púlssog (pulsed vacuum).
Bylgjurnar eru álitnar auka flæði súrefnis fruma með því að hita fituvef húðarinnar 5-15 mm niður í húðina. Laserinn er álitinn auka teygjanleika (elasticity) húðarinnar en hann nær u.þ.b. 5 mm niður í húðina. Hiti með báðum þessum orkugjöfum er álitinn fá kollagenið til að skreppa saman og þykkna sem dregur úr rákunum. Hitinn og púlssogið er álitið leiða til nýmyndunar kollagens í trefjakímfrumum (fibroblasts) og óbeint með auknu blóðflæði.
Almennt um meðferðina
Hitinn er sársaukalaus. Roði við meðferðina hverfur á nokkrum mínútum. Samhliða meðferð á sólbaðsstofu er ekki leyfð. Heimilt er að vera í sól en roði og brúnka mega ekki vera til staðar við meðferð. ELOS þolist vel óháð litarhætti. Meðferðir eru framkvæmdar eins og þurfa þykir á 7-10 daga fresti sé ELOS notað eitt sér en á 3-4 vikna fresti sé því beitt með húðslípun (sjá að neðan). Líða má lengur á milli meðferða. Það tekur nokkur skipti fyrir árangur að koma fram.
Húðslípun (microdermabrasion)
Þessi aðferð er notuð í völdum tilfellum eftir mat sérfræðilæknis til þess að vinna bug á húðsliti, sérstaklega sé það rautt eða rauðblátt. Húðslípun er oft beitt með ELOS meðferðinni hér að ofan.
Verkunarháttur
Ekki er vitað nákvæmlega hvernig húðslípun virkar í leðurhúðinni en vitað er að hún virkjar svokallaða „matrix metalloproteinasa“ sem geta brotið niður kollagen og auðveldað endurmótun á leðurhúðinni. (Sjá nánar vísindagrein Karimipour DJ et al: Microdermabrasion: A molecular analysis following a single treatment. J Am Acad Dermatol 2005;52:215-23). Heildaráhrifin eru að húðin stinnist og liturinn gefur sig.
Almennt um meðferðina
Sogi með neikvæðum þrýstingi er beitt á húðslitið. Roði hlýst af þessu sem jafnar sig á nokkrum vikum. Þessar meðferðir eru sársaukalausar og eru endurteknar á 3-4 vikna fresti eins oft og þurfa þykir. Árangur kemur ekki fram fyrr en eftir nokkur skipti. Þessari meðferð er oft beitt með ELOS meðferð (sjá að ofan).
Þessari aðferð er stundum jafnframt beitt við meðferð öra.
Myndband
Greinar
Útvortis meðferðir
Nokkrar slíkar eru til. Álitið er að A-vítamínsýruafleiður útvortis (EKKI A-vítamín til inntöku) geti verið gagnleg.
Lasermeðferð gegn lit í húðsliti
Stundum er húðslit rautt eða blárautt. Liturinn er til kominn vegna lits blóðkorna í æðum.
Litur í húðsliti skapar stundum meira útlitslegt vandamál en rofið í húðinni.
Meta þarf hvert tilfelli af sérfræðilækni m.t.t. að unnt sé að ná besta mögulega árangri. Til greina kemur húðslípun (sjá að ofan), lasermeðferð eða míkrólitun (sjá að neðan).
Meðferð og verkunarháttur lasera
Til meðferðar á roða eru notaðir laserar með bylgjulengd sem rauður litur blóðkornanna dregur til sín. Þannig næst laserljósorka sértækt inn í æðarnar sem hnjaskar þær en við endurteknar meðferðir eyðast þær upp af átfrumum (macrophages).
Myndband
Greinar
Míkrólitun (medical micropigmentation)
Míkrólitun kemur til greina til að minnka lit húðslits.
Fyrir míkrólitun er húðin deyfð með deyfikremi. Örin eru síðan flúruð (tattooing) með það að markmiði að fá fram eðlilegan húðlit. Þetta er sársaukalaus meðferð. Gæði lita skipta miklu máli og taka þarf tillit til litarháttar og undirtóns húðar. Þetta er mikilvægt til að forðast að aðrir litir komi fram við fölnun míkrólitunarinnar og þá einkum blár, grár, bleikur og appelsínugulur.
Oft þarf aðeins eina meðferð. Þurfi aðra meðferð er hún framkvæmd um 6 vikum síðar.
Sjá nánar um microlitun á http://www.micropigmentation.org