Skip to main content
Húðsjúkdómar

Matarofnæmi (food allergy)

Eftir september 28, 2009júní 1st, 2022Engar athugasemdir

Hvað er matarofnæmi?

Matarofnæmi getur lýst sér sem ofsakláði eða ofsabjúgur (sjá viðkomandi flipa) eða með meltingaróþægindum eins og niðurgangi. Óvanalegar eru svæsnar svaranir ónæmiskerfisins gagnvart matarofnæmisvökum en þær geta leitt til blóðþrýstingsfalls og ofnæmislosts (anaphylactic shock).

Rannsóknir

1. Matarofnæmispróf.

Slík próf fara þannig fram að algengum ofnæmisvökum er ýtt inn í húðina með litlum pinnum og svörun líkamans við þeim metin stuttu síðar. Í völdum tilvikum eru mótefnamælingar í blóði nauðsynlegar eða snertiofnæmispróf (Sjá flipann “Ofnæmi”).

2. Dagbók.

Öll fæðuinntaka er skráð í dagbók svo og möguleg ofnæmissvörun. Markmiðið er að sjá hvers var neytt stuttu áður en ofnæmiseinkenni koma fram í þeirri von að finna megi ofnæmisvakann. Stundum er ofnæmisvakinn viðbótarefni í fæðu (food additive) en frægust þeirra eru azo litarefni, salisýlsýra (salicylic acid) og bensósýra (benzoic acid) (sjá sér flipa undir flipanum „Snertiofnæmisvakar“. Lista yfir viðbótarefni í fæðu er að finna í svokölluðum E-töflum (http://www.exploreenumbers.co.uk/ENumbersRevealedCategory.html).

3. Fæðuinntaka.

Í sumum tilvikun er nauðsynlegt í greiningartilgangi að neyta eingöngu fæðis sem er ekki þekkt af þvi að vera ofnæmisframkallandi (sjá lista hér fyrir neðan). Einnig er stundum nauðsynlegt að gera hið gagnstæða, þ.e. að neyta þess ofnæmisvaka sem er grunaður um að valda ofnæminu en hafa þarf bak við eyrað vissa áhættu við slíka prófun því sumir ofnæmisvakar geta valdið kerfisbundunum ofnæmissvörunum (systemic allergic reactions) með blóðþrýstingsfalli og ofnæmislosti.

Viðbótarefni í fæðu eru gjarnan prófuð á þennan hátt eða með hylkjum sem innihalda þau. Þess ber að geta að mörg rauðvín innihalda súlfat (sulfates) sem geta valdið húðsvörunum sem eru ekki af ofnæmistoga.

Hvað er til ráða?

1. Fyrirbyggjandi aðgerðir.

Rannsóknir styðja minni líkindi fyrir myndun ofnæmis hjá börnum:

  • – séu þau lengi á brjósti
  • – fari þau seint á fast fæði
  • – forðist móðirin þá ofnæmisvaka sem hún hefur ofnæmi fyrir á meðan á meðgöngu stendur
  • – sé þeim haldið sem lengst frá þeim mat sem er ofnæmismyndandi
  • – sé fjölbreytni fæðisins mikil.

2. Meðferðir.

A. Forðast ofnæmisvakann.

Stundum tekst þetta vel ef ofnæmisvakinn er lítið útbreiddur en stundum er hann mjög útbreiddur í fæðuumhverfinu og þá erfiðara að forðast hann. Í vissum tilfellum er nauðsynlegt að fylgja matarlistum varðandi hvers er í lagi að neyta og hvers ekki.

B. Lyfjameðferð.

Yfirleitt er nauðsynlegt að prófa mismunandi gerðir lyfja til að finna út hvað/hvaða lyf henta viðkomandi best. Þeir sem eru í hættu að fá lost (anaphylaxis) ættu að hafa sprautu með adrenalíni nálæga og bera merki á sér þar sem ofnæmisvakans er getið, t.d. Medic Alert (http://www.medicalert.is/).

C. Afnæming (desensitization).

Í vissum tilfellum er unnt að gefa ofnæmisvakann í hækkandi skömmtum í þeirri von að ofnæmiskerfið “venjist” honum og hætti að svara honum með ofnæmi. Takist það verður engin ofnæmissvörun komist viðkomandi í tengsl við ofnæmisvakann.

Listi yfir mat sem er álitinn EKKI vera ofnæmisframkallandi.

Hér að neðan eru talin upp ýmis matvæli sem ekki eru álitin valda ofnæmi. Ekki er mælt með að fólk neyti þessa fæðis að staðaldri heldur er neysla þessa fæðis eingöngu hugsuð í greininatilgangi í nokkra daga eftir ráðgjöf og undir eftirliti læknis:

Kálfakjöt, kalkúnakjöt, kjúklingur, lambakjöt, lax, hrísgrjón, rúgur, grasker (merja), sólblómaolía, epli, apríkósur, aspas, lárperur (avocado), bygg, mýraber (cranberries), döðlur, vínber, hungang, salat, mangó, hafrar, papaya, ferskjur, rófur, broccoli, gulrætur, blómkál, perur, rúsínur og sætar kartöflur. Salta má mat.

Listi yfir mat sem er álitinn vera ofnæmisframkallandi.

Hér eru talin upp matvæli sem geta valdið ofnæmi. Ekki er mælt með því að fólk neyti þessa fæðis og er listinn eingöngu notaður í greiningatilgangi eftir ráðgjöf læknis og undir eftirliti hans. Í sumum tilfellum geta ofnæmisviðbrögð fyrir þessum mat leitt til blóðþrýstingsfalls og lostsástands (anaphylaxis). Listinn er þessi: ber, súkkulaði, kanill, sítrusávextir, bókhveiti (buckwheat), kókoshnetur, korn, sinnep, baunir, hnetusmjör, svínakjöt, sykur, tómatar, ger og matarbætiefni en þau má finna t.d. á slóðinni https://www.food.gov.uk/science/additives/enumberlist 

Þegar um ofnæmi er að ræða hjá börnum er oft að finna ofnæmi fyrir einhverjum eftirfarandi ofnæmisvökum: mjólk, soja, skelfiskur, hveiti, eggjahvíta, jarðhnetur og trjáhnetur eins og cashewhnetur, möndlur, pecanhnetur og valhnetur.

Sjá einnig greinarnar „Ofsakláði (urticaria) og ofsabjúgur (angioedema)„, „Ofnæmi“ og “Snertiofnæmi (contact allergy)”.

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út