Skip to main content

Húðflúrseyðing

Lasermeðferð til að fjarlægja húðflúr

Húðflúrseyðing fer fram með sérstökum orkulaser sem gefur laserljósið í stuttum púlsum. Þetta er mikilvægt til að fjarlægja lit vel.
Okkar laser gefur 2 púlsa í hverju skoti sem eykur árangurinn enn frekar.

 

Mikilvæg atriði varðandi lasermeðferð

  • Til eru mismunandi gerðir lasera á markaðinum
  • Við notum aðeins lasera í hæsta mögulega gæðaflokki
  • Þetta eykur árangur meðferðar og dregur úr aukaverkunum
  • Mat sérfræðilæknis fer ætíð fram fyrir meðferð

Hvernig bóka ég húðflúrseyðingu?

  • Við mælum með tíma hjá húðlækni til að tryggja rétta greiningu og viðeigandi meðferð
  • ATHUGIÐ að til eru meðferðaraðilar á Íslandi án nauðsynlegra leyfa sem krefja viðeigandi sérfræðimenntunar umsjónalæknis
  • Þú getur hringt í okkur til að fá tíma hjá húðlækni eða beint til meðferðar

 

Frekari upplýsingar

Tattoo eyðing er nú á tímum gerð með sérstökum orkulaserum sem gefa laserljósið stutt. Við vorum fyrst á Íslandi með slíka lasera en í dag notum við lasera sem gefa 2 púlsa í hverju skoti til að auka enn frekar árangur meðferðar.

Hvað er húðflúr og hvaða gerðir eru til af því?

Húðflúr er litarefni sem komið hefur verið fyrir í húðinni. Oftast velur fólk sér tattoo en þau geta líka orðið til óviljandi, t.d. eftir slys þar sem litarefni nær að bindast leðurhúðinni (dermis).

Til að húðflúr séu varanleg þarf litarefnið að bindast leðurhúðinni. Litarefni sem hafna eingöngu í húðþekjunni (epidermis) ná ekki að festast varanlega í húðinni því þekjan endurnýjar sig.

Hér verður fjallað um brottnám húðflúrs úr leðurhúðinni.

Lasermeðferð

Verkunarháttur lasera

Nokkrar gerðir lasera eru til á markaðinum til að eyða húðflúrum. Þær byggja á gjöf laserljósgeisla inn í húðina af þeirri bylgjulengd sem viðkomandi litur sýgur til sín. Við það myndast orka sem sprengir upp litaagnirnar í flúrinu í minni agnir sem auðveldar átfrumum (macrophages) að fjarlægja húðflúrið.

Meðferðin er ekki sértæk fyrir húðflúrslitinn. Sé þannig valin bylgjulengd fyrir rauðan lit getur rauður litur í æðum einnig dregið til sín laserljósið. Þetta kemur þó ekki að sök nema um svartan lit sé að ræða hjá dökku fólki en áhættumat sérfræðilæknis fer ætíð fram fyrir meðferð.

Grunnatriði varðandi alla lasera er að þeim takist að gefa nægjanlega ljósorku á viðeigandi stað í húðinni þannig að orkan valdi nægjanlegu hnaski á því sem henni er beint að. Þetta er mjög mikilvægt varðandi húðflúrsmeðferð. Einnig er mjög mikilvægt að laserljósið sé gefið í stuttan tíma í einu til að aftra öramyndun og myndun litamunar í húðinni. Okkar laser gefur 2 púlsa í hverju skoti af stuttu ljósi sem eykur árangurinn enn frekar. Allir laserar þurfa að vera af hæsta mögulega gæðaflokki eigi þeir að gagnast vel. Margir laserar á markaðinum eru ekki af slíkum gæðum og tekst því ekki að fjarlægja húðflúr vel og varanlega og án aukaverkana.

Hvers er að vænta af meðferð?

Markmið meðferðarinnar er að fjarlægja eins mikinn lit og hægt er. Stundum fer liturinn algjörlega en stundum minnkar hann mjög mikið niður.

Aðgerðir fyrir og eftir lasermeðferð

LÆKNISFRÆÐILEGAR ÁSTÆÐUR GETA STAÐIÐ Í VEGI FYRIR LASERMEÐFERÐ.

  • Mikilvægt er að sérfræðilæknir meti alla fyrir meðferð.
  • Forðast skal sólarljós a.m.k. í viku fyrir meðferð og helst í 4 vikur eftir hana. Sólartengdur roði eða brúnka þarf að hafa horfið algjörlega fyrir meðferð.
  • Brúnkukrem þurfa að hafa horfið algjörlega úr húðinni fyrir meðferð.
  • Æskilegt er að húðin verði ekki fyrir miklum hita rétt fyrir og eftir meðferð t.d. með heitum böðum.
  • Sérfræðilæknir tekur afstöðu til hvort lyfjameðferð þurfi að stöðvast á meðan á meðferð stendur.

Hvernig fer meðferðin fram?

Til að tryggja öryggi þitt eru sett á þig sérstök gleraugu sem vernda augun fyrir laserljósinu. Góð regla er að hafa augun lokuð á meðan á meðferð stendur en það er engin skylda. Í algjörum undantekningartilfellum er húðin deyfð með deyfikremi fyrir meðferð.

Laserhausinn er látinn leika um meðferðarsvæðið eftir ákv. reglum. Hver meðferð tekur um 15 – 30 mín. eftir stærð meðferðarsvæðisins.

Óháð laserum þarf alltaf nokkrar meðferðir fyrir varanlega eyðingu húðflúra. Tímabil á milli meðferða er oft um 4 vikur en má vera lengra. Húðin þarf að hafa jafnað sig fyrir meðferð og lengd tímans er líka hugsuð m.t.t. að átfrumum hafi tekist að eyða upp þeim litaögnum sem laserinn sprengdi upp við síðustu meðferð.

Hvenær kemur árangur meðferðar fram og hve lengi varir hann?

Árangur kemur fram hægt og rólega og er hann varanlegur.

Kostir lasermeðferðar

  • Árangur lasermeðferða er yfirleitt mjög góður með nútíma læknalaserum.
  • Lasermeðferðir gegn húðflúrum eru sársaukalitlar með þeim búnaði sem við notum. Þær eru áhættulitlar að undangengnu mati sérfræðilæknis.
  • Unnt er að fara beint til vinnu að lokinni meðferð.

Gallar lasermeðferðar

  • Meðferðir geta valdið vægum roða sem fer hratt eða gengur yfir á nokkrum dögum. Mikilvægt er að roði hafi gefið sig áður en maður fer í sól. Sé það ekki gert er mögulegt að fram komi litamunur í húðinni sem getur tekið svolítinn tíma að hverfa. Tilfellum hefur verið lýst þar sem liturinn gaf sig ekki fullkomlega.
  • Allir laserar geta valdið oflitun (hyperpigmentation) eða vanlitun (hypopigmentation) húðarinnar. Þetta er ekki algengt en líkindi þessa eru minnkuð verulega með mati sérfræðilæknis á fólki fyrir meðferð og réttri beitingu hágæðabúnaðar.
  • Allir laserar geta mögulega valdið örum en þau tilheyra til algjörra undantekninga sé rétt að málum staðið. Þeir geta líka valdið litlum yfirborðssárum sem eru sársaukalaus og gróa á nokkrum dögum. Halda þarf slíkum sárum hreinum og þurrum á meðan húðin lokar þeim.
  • Notkun lasera er örugg í réttum höndum. Hún krefst umsjónar eða meðferðar sérfræðilæknis sem getur TAFARLAUST gripið inn í verði vart við aukaverkanir.

ÖRYGGISVIÐVÖRUN!
AF ÖRYGGISÁSTÆÐUM ER LASERMEÐFERÐ Í FEGRUNARSKYNI BÖNNUÐ Á ÍSLANDI ÁN AÐKOMU LÆKNIS MEÐ VIÐEIGANDI SÉRFRÆÐIMENNTUN SVO SEM HÚÐLÆKNIS EINS OG KRAFIST ER Í DANMÖRKU. TIL ERU ÓLÖGLEGIR HEILBRIGÐISSTARFSMENN SVO SEM LÆKNAR EÐA HJÚKRUNARFRÆÐINGAR SVO OG SNYRTIFRÆÐINGAR MEÐ SLÍKA STARFSEMI.

Skurðaðgerð

Lítil húðflúr er stundum freistandi að taka með skurðaðgerð. Galli við slíkar aðgerðir eru ör (scars) sem þær skilja eftir. Gróandi fólks er misjafn, sumir fá lítt sýnileg ör á meðan aðrir fá sýnilegri ör. Ör er hægt að meðhöndla sé ástæða til þess.

Myndband

Greinar

Litalosun í gegnum yfirhúð (Trans-epidermal pigment release)

Tattooeyðing án lasers hefur verið reynd í gegnum tíðina. Þessar aðferðir byggja á að valda einhvers konar hnjaski svo sem með litlum götum inn í leðurhúðina til að unnt sé að koma þar fyrir efni sem fær litinn til að ganga upp á yfirborð húðarinnar. Við gerðum tilraunir með þetta hér áður fyrr en fengum ekki fram nægjanlega góðan árangur.

Myndband

Útvarpsviðtal

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út