Skip to main content
Snertiofnæmi

Povidone joð / povidone iodine (Polyvidone iodine, Polyvinylpyrrolidone iodine eða Polvidone iodine)

Eftir júlí 2, 2012júní 7th, 2022Engar athugasemdir

Sjá einnig grein um joðóform (iodoform)

Hér er um að ræða sérstakt joðmólikúl sem notað er til útvortis sótthreinsunnar á húð. Það er stundum að finna í blöndu með alkóhóli til að auka sótthreinsandi áhrif þess.

Povidone-joð mólikúlið samanstendur af polyvinylpyrrolidone og joði. Álitið er að ofnæmissvörunin sé ekki gagnvart joðhluta mólikúlsins heldur polyvinylpyrrolidone hluta þess (Sjá vísindagreinar Adachi A et al. Anaphylaxis to polyvinylpyrrolidone after vaginal application of povidone-iodine. Contact Dermatitis 2003: 48: 133–136 OG P. Dewachter, P. Tréchotog C. Mouton-Faivre. Allergie à l’iode: le point sur la question (Iodine allergy: point of view). Annales Françaises d’Anesthésie et de Réanimation 2005; 24 (1): 40-52. Greinin er á frönsku). Lýst hefur þó verið tilfelli þar sem ofnæmissvörunin virðist vera gegn joðhlutanum en ekki gegn polyvinylpyrrolidone eða povidone hluta mólikúlsins (Sjá vísindagrein A. Weinstabl, P.M. Amann, G. Wurpts og H.F. Merk. Jodallergie (Iodine allergy). Der Hautarzt 2012; 63(5):360-363. Greinin er á þýsku).

Í geislalæknisfræði eru notuð joðskuggaefni (contrast media) í greiningaskyni. Slík skuggaefni innihalda yfirleitt ekki povidone eða polyvinylpyrrolidone þó til séu slík skuggaefni svo sem Télébrix Hystéro®. Nokkur tilfelli þar sem fólk hefur hlotið bráðaofnæmi fyrir skuggaefni hafa verið ofnæmisprófuð neikvæð fyrir povidone-joði (sjá grein P. Dewachter et al hér að ofan). Í einu tilfelli fékk einstaklingur ofnæmi fyrir skuggaefni og povidone joði, prófaðist jákvæður fyrir báðum og einnig venjulegu joði en óljóst er hvort hið venjulega joð hafi þýðingu varðandi skuggaefnið (sjá vísindagrein A. Weinstabl et al hér að ofan). Þannig verður að telja mjög ólíklegt að ofnæmis gæti eftir gjöf skuggaefnis hjá þeim sem hafa povidone-joð ofnæmi eða ofnæmi fyrir venjulegu joði en möguleiki þess er þó til staðar.

Mikilvægt er ætíð að láta lækni sem stjórnar skuggaefnisrannsókn vita um povidone-joð ofnæmið.

Mikilvægt er að upplýsa heilbirðgisstarfsfólk um ofnæmi fyrir povidone-joði hafi maður ofnæmi fyrir því. Lostástand vegna povidone-joðs er mögulegt komi ofnæmur einstaklingur í snertingu við það.

Bent skal á að sum lyf kunna að innihalda povidone (polyvinylpyrrolidone) eða joð sem kann að skapa hættu á ofnæmissvörun hjá þeim sem hafa ofnæmi fyrir povidone-joði.

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út