Fæðingablettir (naevus eða nevus, í fleirtölu naevi eða nevi) eru eins og nafnið bendir til meðfæddir blettir. Orðið „fæðingablettur“ þýðir í reynd afmarkað meðfætt þroskamein (developmental lesion) í húð eða slímhúð þar sem um er að ræða of mikla eða of litla formgerð (structure) en orðið hefur þróast þannig að meining þess sé afmörkuð við of mikla afmarkaða formgerð sortufruma (litmyndandi fruma) húðarinnar og er það notað þannig hér. Með tímanum verða fæðingarblettirnir sýnilegir.
Fæðingarblettir geta komið fram á húðinni hvar sem er.
Fjölmargar gerðir fæðingarbletta eru til en hér er fjórum þeirra lýst:
- Junctional fæðingablettir.
- Hér eru fæðingablettafrumurnar staðsettar neðst í húðþekjunni sem er efsta lag húðarinnar og sést liturinn í sortufrumunum frá yfirborðinu.
- Dermal fæðingarblettir.
- Hér eru sortufrumurnar dýpra niðri í húðinni eða í leðurhúðinni og því sést liturinn yfirleitt ekki. Þegar þessir blettir eldast lyftast þeir gjarnan upp og skaga kúlulaga upp úr húðinni.
- Compound fæðingarblettir.
- Hér eru frumurnar staðsettar bæði í leðurhúðinni og neðst í húðþekjunni þannig að þessir blettir eru bæði litaðir og upphækkaðir.
- Congenital fæðingarblettir
- Eru sýnilegir frá fæðingu eða fljótlega eftir hana og verða gjarnan hærðir með tímanum. Þeir eru mismunandi mikið litaðir og upphækkaðir.
Góðkynja fæðingarblettir eru ekki hættulegir en þeir geta breyst í fæðingarbletti með forstigsbreytingum (dysplastic nevi) sem geta orðið að sortuæxlum sem kallast melanoma á ensku og eru þau illkynja. Algengast er þó að sortuæxli myndist ekki úr fæðingarblettum. Sortuæxli flokkast í nokkrar gerðir sem kallast á ensku:
- Superficial spreading melanoma,
- Nodular melanoma,
- Lentigo maligna (freknumein),
- Lentigo maligna melanoma (ífarandi freknumein),
- Desmoplastic melanoma og
- Acral lentiginous melanoma sem koma á hendur eða fætur.
Mikilvægt er að þekkja merki um umbreytingu góðkynja bletta en hún kann að vera til staðar þegar blettirnir:
- verða ósamhverfir (Asymmetry)
- fá óreglulega kannta (Boarder)
- hafa fleiri en einn lit (Color)
- eru stærri en 6 mm í þvermál en þessi regla er ekki algild og litlir blettir geta hafa breyst (Dimension)
- breytast hægt og rólega (Evolving)
Einnig er það merki um mögulega umbreytingu þegar sár eða kláði myndast í fæðingarblettum eða ef roði myndast í þeim eða í kringum þá.
Aukin líkindi illkynjunnar eru álitin til staðar hjá þeim sem hafa ljóst hörund, sóla sig gjarnan, brenna í sól, hafa marga bletti eða stóra eða bælt ónæmiskerfi. Erfðir eru álitnar skipta máli í mörgum tilvikum.
Æskilegt er að fólk klæði sólina af sér með ljósum fötum, höttum eða skyggni og þá sérstaklega þegar hún er hvað heitust og eigi er unnt að forðast hana. Einnig er æskilegt að nota sólarvörn með háum UVA og UVB sólarvarnarþáttum (sun protection factor eða SPF).
Faraldsfræði
Of mikil geislun barna og ungmenna er álitin mjög óæskileg og sérstaklega er álitið slæmt ef húð þeirra brennur í sól. Aukning í nýgengi (ný tilfelli/ár) tilfella er að mestu bundin við hvíta kynstofninn. Hér á landi hefur sortuæxlum fjölgað mjög undanfarna áratugi og hefur fjölgunin tvöfaldast á einum áratug. Athyglisvert er að sortuæxli eru algengari á Íslandi meðal kvenna gagnstætt við margar nágrannaþjóðir og að fjölgun tilfella er mest hjá ungum konum þar sem þau eru algengasta ástæða krabbameins í aldurshópnum 15-34 ára. Skv. krabbameinsskrá greinast að meðaltali um 50 einstaklingar með sortuæxli á ári.
Hvað er til ráða?
Æskilegt er að skoða fæðingarbletti og önnur húðmein mánaðarlega. Erfitt getur þó reynst fyrir fólk að greina milli ólíkra gerða góðkynja bletta, bletta með forstigsbreytingar, sortuæxla eða húðmeina sem ekki eru fæðingarblettir. Við mælum með tafarlausu mati lækna hvenær sem grunur vaknar um breytingu eða verði vart við einkenni svo sem kláða frá fæðingarblettum eða öðrum húðmeinum. Auk þess mælum við með reglulegu eftirliti á öllum húðblettum u.þ.b. árlega og örar verði vart við forstigsbreytingar eða sortuæxli hjá viðkomandi eða gæti ættarsögu um slíkt. Hormónar geta haft áhrif á fæðingarbletti og því ættu blettir sem dökkna eða stækka á meðgöngu svo og nýjir blettir sem myndast á meðan á henni stendur að skoðast af lækni sem fyrst.
Með sjónrænu mati og stundum einnig smásjármati eða starfrænu myndrænu mati leggur læknir mat á hvort fæðingarblettir þurfi að fjarlægast með aðgerð eða ekki eða hvort að þeir krefjist eftirlits.
Blæðing undir nögl. Útiloka þarf sortuæxli.
Fæðingarblettir með forstigsbreytingum (dysplastic nevi)
Sortuæxli
Fæðingarblettir (góðkynja)
Meðfæddur fæðingarblettur