Skip to main content
Húðsjúkdómar

Vörtur á fótum og/eða höndum

Eftir febrúar 9, 2009Engar athugasemdir

Hvernig myndast þetta?

Þessar vörtur myndast af veirum sem sýkja húðina, sérstaklega human papilloma virus (HPV). Smit verður milli einstaklinga með beinni snertingu t.d. handartaki eða óbeint í gegnum hluti eins og sameiginlegt handklæði. Vörtur geta staðið árum saman. Sjá einnig greinina „Flatar vörtur“ en þær setja sig gjarnan á handarbök og stundum enni.

Hvað er til ráða?

Ýmsar leiðir eru til að fjarlægja vörturnar og er hér nokkurra getið:

A. Frysting og vörtueitur saman.

Meðferðin hefst á því að efstu lög húðþekjunnar yfir vörtunum eru skafin af. Síðan er beitt köfnunarefnisfrystingu og að lokum er sett vörtueitur á vörturnar sem haft er á húðinni mismunandi lengi áður en það er þurrkað í burtu t.d. með blautum pappír. Í kjölfarið er vonast til þess að bólga verði á meðferðarsvæðunum en án hennar skeður lítið eða ekkert. Á fótum er vonast til þess að bólgan verði ekki það mikil að erfitt verði að stíga í fætur. Það eru aðallega tveir þættir sem hafa áhrif á hversu mikil bólgan verður en það er tíminn sem eitrið er haft á húðinni og það álag sem meðhöndlaður líkamshluti verður fyrir. Sé um fætur að ræða sem meðhöndlaðir eru í fyrsta skipti er ráðlagt að sleppa íþróttaiðkun í 2 sólarhringa því til eru þeir sem bólgna hressilega af eitrinu. Eftir fyrsta skiptið er ljóst hversu viðkvæmur einstaklingurinn er og tíminn sem eitrið er haft á þá annað hvort aukinn eða minnkaður. Meðferðirnar eru endurteknar í nokkur skipti á u.þ.b. 3ja vikna fresti þar til vörturnar hafa gefið sig. Þessi meðferð er ekki álitin vera örmyndandi.

B. Brennsla.

Í völdum tilfellum eru vörturnar deyfðar með deyfilyfi undir húð og vörturnar síðan brenndar og skafnar burtu. Aðferðin getur valdið öri og stundum þarf að endurtaka hana. Á svæðum þar sem álag er til staðar eins og t.d. yfir tábergi og hælum er æskilegra að beita meðferðinni sem byggir á frystingu og vörtueitri hér að ofan því örmyndanir þær sem geta hlotist af brennslu geta leitt til varanlegra verkja er stigið er í fæturna þar sem örin kunna þá að þrýsta á taugar.

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út