Skip to main content
Kynsjúkdómar

Kynfæravörtur

Eftir febrúar 9, 2009Engar athugasemdir

Hvað veldur þessu?

Ástæða kynfæravarta er veirusýking af vissum undirgerðum veiru sem kallast human papilloma virus (HPV). Sýking berst á milli einstaklinga við kynmök og er smithættan talin mikil. Það tekur marga mánuði fyrir vörturnar að myndast en í mörgum tilfellum leiðir sýkingin hvorki til sýnilegra varta né einkenna. Áætlað er 2/3 þeirra sem hafi mök við sýktan einstakling fái sýkinguna. Talið er að undirgerðir HPV nr. 6, 11, 16, 18, 30, 31, 42, 43, 44, 45, 51, 52 og 54 geti valdið kynfæravörtum og að undirgerðir nr. 6 og 11 séu langalgengastar. Hæfileiki þessara tveggja veira til myndunnar leghálskrabbameins er álitinn lítill en algengustu undirgerðir HPV sem geta valdið því eru álitnar vera nr. 16, 18, 31 og 45.

Hvað er til ráða?

Ýmsar meðferðir eru til við þessum vörtum. Er hér fjallað um nokkrar þeirra.

1. Brennsla.

Brennsla fer þannig fram að eftir húðdeyfingu eru vörturnar brenndar og skafnar af.

2. Lyfjameðferð.

Sérlyfið Condyline® inniheldur virka lyfið podophyllotoxin sem er unnt að nota til að eyða þessari gerð varta. Það er borið á vörturnar tvisvar daglega í 3 daga en þá er hvílt í 4 daga. Endurtaka má meðferðina í allt að 5 vikur. Aldara® er annað sérlyf sem inniheldur virka lyfið imiquimod sem einnig er hægt að beita gegn vörtunum í völdum tilfellum.

3. Frysting.

Fljótandi köfnunarefni er úðað á vörturnar. Kuldinn köfnunarefnisins veldur bólgu sem eyðir vörtunum.

Er hægt að fyrirbyggja smit?

Gardasil® er bóluefni sem hægt er að nota til að aftra smiti gegn HPV undirgerða nr. 6, 11, 16 og 18. Það er ekki virkt hafi smit átt sér stað. Bólusetningin fer fram þrisvar á 6 mánaða tímabili. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um þörf endurbólusetningar. Bóluefnið er ætlað fullorðnum og börnum allt niður í 9 ára. Hugsanlegt er að bólusetning með lyfinu veiti ekki sjúkdómsvörn hjá öllum bólusettum einstaklingum og hefur vörnin ekki verið metin hjá karlmönnum.

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út