Morgunblaðið 9. sept. 2017.
Ásdís Ásgeirsdóttir
Það er óhjákvæmilegt að húðin slappist, hrukkist og missi teygjanleika sinn með hækkandi aldri. Ekki finnst öllum hrukkur fallegar og flest viljum við líta út fyrir að vera yngri en við erum.
Bæði snyrtivörubransinn og læknavísindin keppast við að finna lausnir til að minnka hrukkur og gera slappa húð stinna á ný. Krem, fylliefni, bótox, elos-meðferð, vítamín og fæðubótarefni eru notuð; allt í þeim tilgangi að láta húðina endurheimta fyrri ljóma. Eitt af því sem er á markaði sem talið er geta hjálpað er kollagen í töflu- eða duftformi.
Kollagen er límið
Kollagen er eitt helsta uppbyggingarprótein líkamans og má finna það í liðum, liðamótum, vöðvum, sinum og beinum en einnig er það mjög stór hluti af uppbyggingu húðarinnar, hársins og naglanna.
Oft er talað um að kollagen sé límið í líkamanum en þetta prótein sér til þess að vefir líkamans haldist sterkir. Líkaminn framleiðir sjálfur kollagen en um 25 ára aldurinn fer að hægjast verulega á framleiðslunni, eða að meðaltali um 1,5% á hverju ári og vefir líkamans byrja að veikjast. Það hefur þau áhrif á húðina að hrukkur myndast og teygjanleiki minnkar.
Skiptar skoðanir eru um hvort inntaka kollagens virki því eins og önnur prótein sem maðurinn borðar, þá brotnar það niður í meltingarvegi og kemst því ekki í heilu lagi inn í vefi líkamans við inntöku. Leitað var álits hjá lækni og tveimur framleiðandum kollagens hérlendis til að finna svör.
Nútíma snákaolíusvikastarfsemi
Skurðlæknirinn Björn Geir Leifsson, sem einnig er með mastersgráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu, heldur úti bloggi þar sem hann gagnrýnir ýmsar nýjungar sem koma á markað og eiga að vera allra meina bót. Hann hefur sterkar skoðanir á inntöku kollagens og telur að verið sé að plata fólk. Björn útskýrir að töflurnar séu í raun bara matur, í mjög smáum skömmtum.
Telur þú að þessar töflur geri gagn, lagi hrukkur eða liðvandamál?
„Nei, það er ekkert sem styður það. Ef þú spyrð framleiðendur þá koma þeir með margvíslegar tilvitnanir í fyrirsagnir en ef það er skoðað eru það oftast umfjallanir eða skoðanakannanir meðal ánægðra viðskiptavina. Ef það er eitthvað sem lítur út eins og vísindavinna, þá kemur annað í ljós þegar farið er að gá betur, og þetta er oft frá keyptri rannsóknarstofu. Niðurstöður lítilla og vitlaust hannaðra rannsókna eru oftúlkaðar. Rannsóknirnar eru oft settar upp þannig að ómögulegt er annað en að finna í þeim einhverja jákvæða niðurstöðu.“
Björn segir að efnið kollagen sé í raun ekki annað en fæðuvara, þ.e.a.s. matarlím unnið í stórum verksmiðjum úr fiski eða dýrasláturafurðum.
„Hluti framleiðslunnar er beinlínis ætlaður til framleiðslu á snyrtivörum og fæðubótarefnum með ósönnum fullyrðingum um virkni,“ segir Björn.
Segir hann orðið „collagen“ þýða í raun matarlím og kollagen-töflurnar innihaldi sama matarlím og notað er í margs konar matvælaframleiðslu. Nefnir hann að sælgætishlaup innihaldi sama efni og kollagentöflurnar. „Oft er varan auglýst sem innihaldandi „hydrolysed collagen“ og það eigi að vera eitthvað sérstaklega merkilegt en það er bara soðið svolítið lengur þannig að það verða minni sameindir og það hleypur síður. Svo er þetta selt í tonnatali, hræódýrt hráefni og í kringum það er búinn til lygavefur um hvaða gagn og gæði þetta á að hafa,“ segir hann.
„En þetta er sem sagt ekkert annað en matur sem búið er að formelta og gerir ekkert meira fyrir þig en annar prótínmatur. Það sama gerist í meltingarveginum hjá okkur og í verksmiðju, við brjótum mat niður í amínósýrur sem við nýtum sem fæðu. Þú getur alveg eins tuggið beikon-sneið eða borðað egg og í rauninni færðu miklu meira og betra út úr því. Kollagenið er bara ein tegund af prótíni, byggð upp af amínósýrum og ef þú sýður það með hvötum þá meltist það niður í frumeiningar sínar, amínósýrurnar, sem er einfaldlega næring,“ segir Björn Geir og tekur dæmi af íslensku vörunum.
„Þessar íslensku vörur innihalda bara matarlím unnið úr fiski. Þetta er auðvitað næring, en þetta er svo lítið magn og dýrt. Það hefur ekki nokkurn skapaðan hlut að segja hvað varðar heilsubót. Það er miklu betra að fá sér soðna ýsu,“ segir hann og útskýrir að töflurnar geti ekki endurnýjað kollagenið í húðinni, né muni það laga liðvandamál. „Það er tóm þvæla. Þegar þú borðar mat sem inniheldur hold úr fiski eða öðrum dýrum, ertu að borða kollagen sem brotnar svo niður í meltingunni, rétt eins og í verksmiðjunni. Það er ekkert merkilegra þótt það komi úr pilluglasi. Fæðubótarframleiðsla er risaiðnaður í heiminum í dag,“ segir hann.
Er þá bara verið að plata fólk?
„Algjörlega. Nútíma snákaolíusvikastarfsemi. Fáðu þér harðfisk frekar, hann er miklu betri og miklu meira af kollageni þar. Á bakvið þetta er ósköp einföld ástæða, gróðavon.“
Þeir sem taka inn kollagen í töfluformi þurfa að taka allt að tíu töflur á dag.
Telur efnið leiða til sléttari húðar
Davíð Tómas Davíðsson er matvælafræðingur hjá Codland, sem vinnur kollagen úr fiskroði. Davíð útskýrir að náttúrulegt kollagen sé ekki meltanlegt og af þeim sökum segi sumir læknar það ekki virka. „Það sem við gerum er að brjóta kollagenið niður í meltanlegar einingar sem eru teknar upp af líkamanum,“ útskýrir Davíð og segir rannsóknir á rottum hafa sýnt það safnast í húðinni og liðum.
Hann segir kollagen einnig hafa verið prófað á fólki. „Það hafa verið gerðar svokallaðar tví-blindni slembiraðaðar rannsóknir á fólki, það er að segja viðfangsefnið veit ekki hvort hann er að fá kollagenið eða lyfleysu og eins veit sá sem vinnur með viðfangsefnin eða niðurstöður mælinga ekki hvað hver tekur. Þetta er gert til að gæta hlutlægni. Það hafa verið að koma fram slíkar rannsóknir sem sýna fram á jákvæða virkni efnisins. Og það sem meira er, niðurstöður virknimælinga fyrir kollagenpeptíð hafa verið magnbundnar, þannig að ef þú gefur minna er minni virkni og ef þú gefur meira er meiri virkni. Þannig að þetta er ekki einhver tilviljun. Ég ætla ekki að segja að þetta sé alveg skothelt, enda er þetta frekar nýtilkomið efni,“ segir Davíð og nefnir að EFSA (European Food Safety Authority) hafi hafnað heilsufullyrðingu um kollagen árið 2013.
„Það er engin heilsufullyrðing til um kollagen. Þeir segja m.a. að þeim finnist niðurstöðurnar ekki nógu sannfærandi þegar kemur að liðum en að þeir sjái mun á húðinni, þó ekki heilsuáhrif heldur frekar að húðin sléttist,“ segir hann. Davíð segir að síðan þá hafi þó margar vandaðar klínískar rannsóknir verið framkvæmdar og bætir við að í Kanada sé núna verið að leyfa heilsufullyrðingar á vissum kollagenvörum sem gerðar hafi verið klínískar rannsóknir á. „Í Kanada er vara úr kollagenpeptíðum sem heitir Verisol, og eru leyfðar heilsufullyrðingar um að neysla hennar leiði til sléttari húðar,“ segir Davíð.
„Þetta virðist hafa einhverja virkni. En það breytir því ekki að ég mun aldrei segja í auglýsingu á minni vöru að þetta virki 100% fyrr en það er búið að fara í gegnum alla réttu aðilana,“ segir hann. „Það er mjög erfitt að fá viðurkenningu nema virknin sé mjög mælanleg.“
Eru þið að gera rannsóknir á ykkar vöru núna eða þegar hún kemur á markað?
„Við erum ekki að framleiða söluvöru í dag en erum að framleiða tilraunaframleiðslu og höfum nú undanfarið tvö ár, í samstarfi við Matís, verið með frumurannsóknir á peptíðum í efninu. Við gáfum brjóskfrumum ákveðið peptíð sem finnst í vörunni okkar og þar höfum við séð magnbundna virkni. En svo er stefnan að fara í meiri klíníska vinnu seinna meir.“
Þið gangið út frá því að kollagenið úr fiskroðinu muni slétta húð og minnka liðverki?
„Já, það er vegna þessara áhrifa sem varan er svo vinsæl úti í heimi. Það er mikið af vafasömum fullyrðingum í heilsugeiranum og okkur er mjög annt um að vera ekki þar. Kollagenpeptíð eru að verða sífellt vinsælli á erlendum mörkuðum. Vörum sem innhalda efnið er stöðugt að fjölga og það myndi ekki gerast ef neytendur fyndu engan mun á sér.“
Hlustum á kúnnanna
Hrönn Margrét Magnúsdóttir, stofnandi og forstjóri Feel Iceland, hefur fulla trú á virkni kollagens, bæði fyrir húð og liði. Vörurnar þeirra eru bæði í duft- og hylkjaformi og eru unnar úr fiskroði. Mælir Hrönn með 10 grömmum á dag til að sjá virkni.
Eru þið með rannsóknir á bakvið ykkur?
„Við höfum ekki gert rannsóknir sjálfar en styðjumst við rannsóknir frá erlendum háskólum og höfum nýtt okkur það. Við skoðum vel hver gerir rannsóknina, hvernig rannsóknin er byggð upp og hversu stórt úrtakið er og metum það út frá því hvort það sé að marka þær eða ekki.“
Teljið þið að varan geti minnkað hrukkur og haft góð áhrif á liði?
„Já, það eru til fjölmargar rannsóknir á kollageni og sumar segja að kollagen hafi ekki áhrif en aðrar segja að það virki. Kollagen er mjög misjafnt, eftir því hvaðan það er tekið, úr fiski, svíni, nautum eða kjúkling. Mólikúlin eru misstór og það er misjafnt hvort líkaminn nær að nýta kollagenið eða ekki. Við vitum ekki nákvæmlega hvað gerist þegar við tökum inn kollagen en það sem er talið að gerist er að ef mólíkúlin eru í réttri stærð, þá nemi líkaminn kollagenið í blóðrásinni og í raun er maður að plata líkamann þannig að hann haldi að kollagen sé að brotna niður og eykur hann þá sína eigin framleiðslu. Það eru nokkrar rannsóknir sem sýna að það sé betri upptaka af fisk-kollageni í líkamanum en öðru kollageni,“ segir Hrönn.
„En það sem við styðjumst aðallega við er hvað kúnninn okkar segir. Og við erum með ótrúlega marga, og sérstaklega fólk með liðverki, sem finnur mikinn mun á sér,“ segir Hrönn og bætir við að fólk taki oft eftir því hversu mikið liðverkir versni þegar skammturinn klárast. „Svo eru aðrir með liðverki sem þetta virkar ekki á, þannig að það fer eftir því hvað er að hrjá fólk, hvort þetta hjálpar eða ekki.“
Neytandinn fellur fyrir glæstum umbúðum
Dr. Bolli Bjarnason, húð- og kynsjúkdómalæknir hjá Útlitslækningu, er vanur að fást við hrukkur í sínu starfi og notar ýmsar aðferðir til þess að draga úr þeim. Hann telur skorta góðar rannsóknir sem sýna fram á virkni þess að taka inn kollagen.
Telur þú að minnka megi hrukkur með því að taka inn kollagen í töflu- eða duftformi?
„Mér finnst skorta góðar rannsóknir sem gefa tilefni til að ætla að kollagen í töfluformi hafi áhrif á hrukkur. Oft á tíðum koma ekki fram í rannsóknum möguleg tengsl höfunda við framleiðendur kollagensins sem verið er að rannsaka en slíkt veldur tortryggni varðandi niðurstöður. Stundum byggjast rannsóknir á blöndu efna, m.a. kollageni og er þá erfitt að túlka niðurstöður,“ segir Bolli.
„Það eru tvær leiðir fyrir framleiðendur vara af þessu tagi hvað rannsóknir varðar. Önnur leiðin er að sýna fram á virkni með rannsóknum en hin að láta það ógert forðist maður niðurstöður. Gallinn fyrir neytendur er sá að vísindastyrkir fást mjög takmarkað til slíkra rannsókna sem þýðir að framleiðendur fjármagna oft rannsóknirnar sjálfir og birta það sem þeim sýnist. Það er með ólíkindum hvað íslenskir neytendur kaupa í góðri trú. Það liggur við að það sé hægt að pakka hverju sem er í glæstar umbúðir og selja,“ segir hann.
Hvað telur þú vera besta ráðið til að stöðva myndun hrukka?
„Aðalatriðið er að aftra því að sól komist inn í húðina m.a. með því að nota sólarvörn og að klæða sólina af sér.“
Hvað er besta ráðið til að minnka hrukkur sem þegar eru komnar?
„Mér finnst aðallega þrjár aðferðir virka gegn hrukkum sem hafa myndast. Fyrsta aðferðin er að stinna leðurhúðina með því að hita hana upp eða með því að erta kollagen leðurhúðarinnar, t.d. með leysi til að fá kollagenið til að þéttast. Önnur aðferðin er að koma fyrir fyllingarefni þar sem hrukkur myndast og sú þriðja að lama vöðvana sem hrukka húðina með Botox,“ segir Bolli.