Hvernig myndast þær?
Frauðvörtur, flökkuvörtur og leikskólavörtur eru samheiti. Frauðvörtur verða til vegna húðsýkingar af völdum DNA poxveirunnar molluscum contagiosum. Veiran smitast annars vegar með beinni snertingu milli einstaklinga og hins vegar með snertingu hluta eins og t.d. handklæðis sem sýktur einstaklingur hefur komist í snertingu við. Frauðvörtur eru algengar hjá börnum á aldrinum 1-10 ára. Fullorðnir smitast stundum við kynmök og koma vörturnar þá gjarnan á kynfæri eða neðarlega á kviðinn.
Hvað er til ráða?
Það getur tekið nokkur ár fyrir líkamann að losna við vörturnar. Þær geta verið að myndast á einum stað á meðan þær eru að hverfa á öðrum. Fylgir þeim stundum exem með tilheyrandi kláða. Ráðlegt er að fjarlægja þær sem fyrst og eru aðallega tvær meðferðarleiðir til þess:
A. Meðferð með vörtueitri.
Vörtueitur er borið á vörturnar og haft á í mismunandi langan tíma eftir meðferðarsvæði og aldri viðkomandi. Við meðferðina bólgnar vartan og umliggjandi húð upp næstu daga á eftir. Árangur meðferðar er metinn við endurkomur sem oft eru á u.þ.b. viku fresti í nokkur skipti en þá eru einnig nýjar vörtur meðhöndlaðar.
B. Meðferð með sköfun.
Börn eru deyfð með húðkremi í 1-2 klukkustundir. Unnt er að fara frá okkur á meðan húðin deyfist. Að deyfitíma liðnum eru vörturnar skafnar burtu með sköfu. Meðferðin er yfirleitt mjög árangursrík en stundum þarf að endurtaka meðferðina komi fram nýjar vörtur. Fullorðnir eru deyfðir með húðfrystingu eða deyfilyfi undir húð og vörturnar síðan skafnar.
C. Meðferð við vörtum í andliti.
Fryst er með fljótandi köfnunarefni í nokkur skipti, oft með u.þ.b. viku millibili þar til vörturnar hafa gefið sig. Stundum er notað húðdeyfikrem í 1-2 klst fyrir meðferðina.