Eftirfarandi grein um stera og húðútbrot birtist í Morgunblaðinu þann 31. maí 2003:
Sterar og húðútbrot
Barksterar lausir við aukaverkanir
Lesendur Morgunblaðsins geta komið spurningum varðandi sálfræði-, félagsleg og vinnutengd málefni til sérfræðinga á vegum persona.is. Senda skal tölvupóst á [email protected] og verður svarið jafnframt birt á persona.is.
Mig langar til að fá upplýsingar um sterakrem sem notuð eru á húðútbrot. Ég á tvö börn á aldrinum 5-10 ára sem fá oft útbrot og exem, aðallega á hendur. Venjulega þegar þetta gerist nota ég sterakrem sem læknirinn minn lét mig hafa resept fyrir. Þessi krem hjálpa yfirleitt mjög vel ef við erum samviskusöm við að bera á þau og útbrotin hverfa fljótlega. Mig langar til að vita hvort það sé ekki hættulegt að bera þessi krem á börnin mörgum sinnum á ári. Fara ekki sterarnir inn um húðina og hafa hættulegar verkanir á börnin?
MARGIR foreldrar hafa heyrt að útvortis barksterar geti þynnt húðina og orðið henni þannig skaðlegir. Meðferð með slíkum sterum miðar að því að nýta lækningamátt þeirra án aukaverkana eins og húðþynningar, sem getur orðið vegna minnkaðrar myndunar bandvefs og grunnefnis í leðurhúðinni. Þar sem rétt notkun barkstera verður að teljast án aukaverkana ætti hræðsla því að vera ástæðulaus hvað notkun þeirra varðar.
Barksterum sem bornir eru á húð er gjarnan skipað í fjóra flokka eftir því hve rauði litur húðarinnar fölnar mikið eftir að þeir hafa verið bornir á. Breytingin á litarhættinum er fólgin í samdrætti í æðakerfinu sem er ein þeirra verkana sem sterarnir hafa en þessi verkun er hættulaus og gengur til baka þegar notkun steranna er hætt. Sterkt samband er álitið ríkja milli þessarar verkunar og hversu kröftug lyfhrif sterarnir hafa. Í evrópsku flokkunarkerfi eru barksterar flokkaðir í fjóra flokka. Í flokki I eru lyf sem innihalda hydrókortisón en sá flokkur hefur minnst lyfhrif. Lyfhrifin aukast síðan með hækkandi flokki.
Þar sem margir húðsjúkdómar geta líkst exemi og margar ástæður geta legið að baki því krefst það oft læknisfræðilegs mats. Mismunandi ástand exems og mismunandi næmleiki húðar fyrir sterum á hinum ýmsu líkamssvæðum gera það að verkum að æskilegt er að sjúklingar séu metnir af læknum fyrir meðferð. Verði sterar fyrir valinu eða sem hluti meðferðar, þarf að huga að mörgum þáttum áður en meðferðin hefst, svo sem aldri sjúklingsins, líkamshlutanum sem meðhöndla á, sjúkdómsmyndinni og útbreiðslu sjúkdómsins. Meðferðin byggist á að hemja sjúkdóminn þar til hann hefur gefið sig og að beita síðan framhaldsmeðferð hæfilega lengi til að aftra því að sjúkdómseinkennin komi aftur fram að meðferð lokinni. Fyrir börn ætti meginreglan að vera sú að nota stera af flokki I til meðferðar á exemi, sem ekki er sýkt, tvisvar sinnum á dag þar til sjúkdómseinkenni hafa dvínað og þá sjaldnar um skeið til að aftra því að sjúkdómurinn skjóti aftur upp kollinum. Slíkt exem sem svarar ekki meðferð krefst oft tímabundið meðferðar með stera af flokki II á meðan verið er að ná exeminu niður og síðan framhaldsmeðferðar með stera úr flokki I tvisvar á dag og síðar sjaldnar um nokkurt skeið.
Spurt er hvort það sé hættulegt að bera sterakrem á börn mörgum sinnum á ári. Stýri maður meðferðinni svo sem greint er hér að framan er það ekki hættulegt. Hætta er hins vegar á aukaverkunum séu sterkir sterar notaðir lengi og sérlega á þunna húð eins og í andliti. Þá er einnig spurt hvort sterar fari ekki inn um húðina og hafi hættulegar verkanir á börnin. Við eðlileg not fer svo lítill hluti lyfsins í gegnum húðina að það er ekki talið hafa neina þýðingu sem máli skiptir.
Í hnotskurn má því segja að barksterar verði að teljast lausir við aukaverkanir séu þeir notaðir rétt og að slík notkun ætti ekki að valda neinni hræðslu.
eftir Bolla Bjarnason
Höfundur er húð- og kynsjúkdómalæknir.
Greinina má einnig nálgast á netinu:
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/734277/?item_num=176&dags=2003-05-31
Af athygli kunna að vera greinarnar Tixocortol-21-pivalate, Budeonside, Hydrocortison-17-butyrate og Ekki setja gyllinæðarkrem í andlitið.