Af athygli kunna einnig að vera greinarnar Sterar og húðútbrot, budeonside, tixocortol-21-pivalate eða hydrocortison-17-butyrate.
Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 6. maí 2006:
Ekki setja gyllinæðarkrem í andlitið
Þessir sterar eru ætlaðir til notkunar við bólgum í endaþarmi og eru miklu sterkari en húðin í kringum augun þolir. — Reuters
Það er líklega ekki algengt en þó hefur frést af konum sem bera gyllinæðarkrem undir augun. Tilgangurinn er að fækka í hvelli hrukkum og minnka bólgu í kringum augun. Dr. Bolli Bjarnason húðsjúkdómalæknir var spurður út í hversu hollt/óhollt þetta væri.
Það er líklega ekki algengt en þó hefur frést af konum sem bera gyllinæðarkrem undir augun. Tilgangurinn er að fækka í hvelli hrukkum og minnka bólgu í kringum augun. Dr. Bolli Bjarnason húðsjúkdómalæknir var spurður út í hversu hollt/óhollt þetta væri.
„Ætli tilgangurinn sé ekki að nýta sér sterana í kreminu til að draga úr bólgunni,“ sagði Bolli, sem þó hafði ekki heyrt um þessa undarlegu notkun gyllinæðarkrems. „Þessir sterar eru ætlaðir til notkunar við bólgum í endaþarmi og eru miklu sterkari en húðin í kringum augun þolir,“ bætti hann við. Hann sagði jafnframt að slík notkun til lengdar þynni húðina og að þessi krem innihaldi einnig gjarnan deyfilyf sem hugsuð séu fyrir verki á endaþarmssvæðinu.
Aðspurður hvort í lagi sé að gera þetta bara í eitt skipti sagði hann fullur efa: „Ætla má að einn stakur steraskammtur einu sinni sé án aukaverkana en þessir sterar eru miklu sterkari en þeir sem ætlaðir eru á húð í kringum augun. Kremin innihalda jú einnig deyfilyf og rotvarnarefni sem ekki eru æskileg í kringum augun. Um leið og farið er að nota þetta oftar en í eitt stakt skipti geta sterarnir valdið aukaverkunum. Þær eru m.a. nýmyndun æða eða þynning á húðinni í kringum augun sem leiðir m.a. til þess að bláæðar verða meira áberandi og það getur leitt til þess að hvimleiður bláleitur blær myndist í kringum augun. Ef sterarnir komast í snertingu við augun geta þeir valdið gláku og innihaldsefni í kreminu geta valdið snertiofnæmi í kringum augun. Þetta er alls ekki hugsað til þessara nota því þessir sterar eru alltof sterkir,“ sagði Bolli með þungri áherslu.
„Stundum sest bjúgur en ekki bólga í kringum augun, t.d. vegna hormónabreytinga, en í slíkum tilfellum þarf aðstoð læknis til að finna mögulega skýringu.“ Bolli var spurður hvað væri þá til ráða við hrukkum í kringum augun eða í andliti. „Til eru krem sem geta dregið úr hrukkumyndun í andliti en séu hrukkur þegar myndaðar þarf að meta hvað hentar í hverju tilfelli.“ Bolli segir að aðgerð sé stundum viðeigandi þegar um sé að ræða bjúgkennd augnlok. „Eftir verkjadeyfingu með húðkremi hjá lækni er hægt að nota við hrukkum t.d. Botox og/eða efni sem eru til staðar í eðlilegri húð en sem minnka strax hrukkur sé þeim komið fyrir í auknu magni undir hrukkurnar í húðinni.“ Bolli segir að sér finnist íslenskar konur yfirleitt hafa mjög raunhæf markmið með hrukkumeðferð. „Meðferð snýst ekki um að gera fólk aftur að unglingum heldur að minnka leiðinlegar djúpar hrukkur sem t.d. myndast í kringum munninn og sem kljúfa stundum varalínur, hrukkur milli augabrúna eða hrukkur sem valda leiðinda fýlusvip er þær ganga niður frá munnvikum.“
Nálgast má greinina rafrænt á þessari slóð: