Skip to main content
Lýtahúðlækningar

Meðferðir með fjölnúkleótíðum

Eftir janúar 6, 2026Engar athugasemdir

1. Upplýsingar um meðferðina.

Hvað eru húðendurnýjandi meðferðir með fjölnúkleótíðum?

Fjölnúkleótíð (kallast oft „polynucleotides“ á ensku) er komið fyrir í húð manna með innspýtingum til að varna öldrun. Þau örva vefjaviðgerðir og hvetja til endurreisnar og endurnýjunar húðarinnar innan frá. Þau geta verið notuð í fjölbreytilegum tilgangi svo sem til að endurnýja eldri húð eða sem fyrirbyggjandi gegn öldrun fyrir yngri húð.

Fjölnúkleótíð (fullt nafn pólýdeoxýríbónúkleótíð) eru langar keðjur af núkleótíðum sem mynda DNA og RNA sameindir. Þau eru unnin úr brotum af fisk-DNA (sem líkjast manns-DNA). Þetta þýðir að þau hafa getu til að virka sem líförvandi efni og koma af stað endurnýjun í húðinni. Þau eru ekki aðeins bólgueyðandi, þökk sé andoxunareiginleikum þeirra, heldur auka þau einnig kollagenframleiðslu og stinna þannig húðina jafnframt að leiða til heilbrigðari yfirhúðar.

Hvernig eru fjölnúkleótíð notuð?

Fjölnúkleótíð eru notuð til að snúa við öldrun vefja og gera við ör með því að takast á við vandamálið frá rótum þess ólíkt hefðbundinni aðferð t.d. með hýalúrónsýru fylliefni sem meðhöndlar einkenni. Fjölnúkleótíð eru álitin veita:

  • Meðferð sem endurnærir eldri húð til að meðhöndla fínar línur og hrukkur.
  • Meðferð í fyrirbyggjandi öldrunartilgangi fyrir yngri húð.
  • Raka fyrir húð sem skortir ljóma og er þreytuleg útlitslega.
  • Meðferð við dökkum baugum umhverfis augun.
  • Styrkingu viðkvæmra húðsvæða eins og í kringum augu og munn.
  • Leið til að draga úr bólgu t.d. vegna rósroða.
  • Meðferð við oflitun, sólarskemmdum, örum, húðsliti og þrymlabólum.
  • Meðferð gegn hárlosi.

Til viðbótar við árangur vegna ofangreinds virka fjölnúkleótíð oft samhliða öðrum meðferðum til að auka áhrif þeirra. Þannig er það álitið geta aukið endingu hýalúrónsýru gegn hrukkum og fellingum.

Hverjir eru kostir fjölnúkleótíða?

Rannsóknir sýna að fjölnúkleótíð geta aukið kollagenmagn húðarinnar og hjálpað til við að skapa heilbrigðari húðþekju. Með fjölbreyttum notkunarmöguleikum eru kostir fjölnúkleótíða m.a.:

• Örvun framleiðslu kollagens og elastíns, sem hjálpar til við að bæta teygjanleika og stinnleika húðarinnar. Þetta getur bætt árangur annarra meðferða sem er ætlað að veita bót á hrukkum og slappleika húðarinnar.

• Að draga úr bólgu, endurheimta rúmmál og raka í húðinni.

• Að hjálpa til við að vernda húðina gegn sólskemmdum.

• Hve stuttan tíma tekur að jafna sig eftir meðferð samanborið við margar aðrar sprautumeðferðir.

Hverjir eru hugsanlegir fylgikvillar, áhættur og aukaverkanir af völdum fjölnúkleótíða?

Áhættan af völdum fjölnúkleótíða er álitin minni en af ​​völdum flestra annarra inndælingaraðferða, en hún fer eftir reynslu og tækni sem meðferðaraðilinn beitir. Ólíkt fylliefnum með hýalúrónsýru er ekki hægt að snúa meðferðinni við þar sem ekki er hægt að leysa fjölnúkleótíð upp.

Aukaverkanir af völdum fjölnúkleótíða eru almennt litlar. Helstu hugsanlegu aukaverkanirnar tengjast stungustaðnum, þar sem sjúklingar geta fundið fyrir roða, bólgu og marblettum sem ættu að hverfa eftir einn til tvo daga að undanskildum marblettum sem geta tekið lengri tíma að hverfa. Sýkingar eru alltaf mögulegar eins og við allar stungur en þær geta krafist sýklalyfjameðferðar.

Alvarlegri aukaverkanir, svo sem ofnæmisviðbrögð, eru afar sjaldgæfar. Eins og gildir fyrir allar meðferðir er mikilvægt að meta hvort fjölnúkleótíð eigi við í hverju tilfelli fyrir sig.

Þá er áhætta sem fylgir því að sprauta á svæði með undirliggjandi viðkvæmum vefjum, t.d. taugum, æðum og augum við meðhöndlun í kringum þau. Einstök sjaldgæf tilfelli með truflunum í þessum líffærum hafa verið tilkynnt.

Hverjir ættu ekki að hljóta meðferð?

Þó húð flestra þoli fjölnúkleótíð vel, jafnvel þó þeir hafi viðkvæma húð, eru þau unnin úr fiski og því ekki hentug fyrir þá sem hafna dýraafurðum (vegan).

Ofnæmisviðbrögð eru mjög ólíkleg þar sem DNA agnirnar eru mjög hreinar svo unnt sé að sprauta þeim á öruggari hátt í þá sem eru með ofnæmi, þar á meðal gegn sjávarfangi.

Fjölnúkleótíð henta ekki konum sem hafa í hyggju að verða óléttar, eru óléttar eða eru með barn á brjósti.

Þú þarft að vera 18 ára til að geta hlotið meðferð.

Hvað gerist við meðferðina?

Fyrir meðferðina er hægt að bera deyfandi krem/smyrsli ​​á meðferðarsvæðið, sérstaklega ef um margar stungur er að ræða. Slík krem/smyrsli innihalda deyfilyfið lídókaín en þau má ekki nota hjá fólki með þekkt ofnæmi fyrir lídókaíni eða öðrum staðdeyfilyfjum af amíðgerð. Unnt er að framkvæma snertiofnæmispróf til að kanna mögulegt ofnæmi fyrir deyfimeðferð. Líkt og við gjöf tanndeyfingarlyfja, er minnkuð sársaukatilfinning og hiti á meðhöndlaða svæðinu í um tvær klukkustundir eftir meðferðina.

Ráðfærðu þig við meðferðarlækninn varðandi lídókaín ef þú ert:

  • með hjartsláttartruflanir.
  • að taka lyf núna, nýlega eða á næstunni sama hvort þau séu með eða án lyfseðils þar með talin náttúrulyf, lyf við hjartsláttartruflunum (t.d. amíódarón eða sótalól), flogaveiki (fenýtóín og fenóbarbital) eða við sýkingum (súlfónamíð og nítrófúrantóín).
  • með hjartabilun.
  • með skerta lifrarstarfsemi.
  • með skerta nýrnastarfsemi.
  • með flogaveiki eða aðra taugasjúkdóma
  • á öðrum staðdeyfilyfjum.
  • með sjaldgæfan arfgengan sjúkdóm sem kallast „glúkósa-6-fosfat-dehydrógenasaskortur“.
  • með kvilla sem kallast „methemóglóbíndreyri“.

Í sumum tilfellum er einnig notað annað deyfilyf, prílókaín, í kremum/smyrslum sem notuð eru við meðferðina.

Fjölnúkleótíðum er yfirleitt sprautað með tveimur ólíkum aðferðum. Sú fyrri notar mjög litlar nálar sem skilja eftir litlar upphækkanir á yfirborðinu sem hverfa venjulega á nokkrum klukkustundum. Sú seinni byggir á að nota stút með sljóum enda til að dreifa efninu jafnt inn í húðina. Ferlið tekur venjulega um 20-30 mínútur.

Hversu langan tíma tekur það að jafna sig eftir meðferð með fjölnúkleótíðum?

Meðhöndlaðir geta almennt snúið aftur til venjulegra athafna strax eftir meðferð.

Ekki er mælt með förðun í 12 klst eftir hvert meðferðarskipti og engum leysimeðferðum eða meðferðum sem geta hækkað hita í húðinni í 3 vikur. Sólarvörn ætti að nota í 2-3 vikur eftir meðferð og forðast ber allt sólarljós.

Ólíkt fylliefnum sem hafa strax áhrif, svo sem hýalúrónsýru, munu meðhöndlaðir ekki taka eftir fullum ávinningi af fjölnúkleótíðum strax. Þetta er vegna þess að áhrifin eru á frumustigi og það tekur tíma fyrir þau að koma í ljós, en meðferðarþegar sjá oft byrjandi bata eftir 2-3 vikur.

Meðferðir eru oft endurteknar á 2-4 vikna fresti í 2-3 skipti.

Árangurinn er álitinn vara að meðaltali í um 6-9 mán. allt eftir lífsstíl meðhöndlaðs og öldrunarhraða.

Meðferðarlæknir þinn hefur sjúklingatryggingu hjá Sjúkratryggingum Íslands og starfsábyrgðartryggingu hjá TM. Sé ástæða til að sækja bætur er mikilvægt að snúa sér fyrst til meðferðarlæknis.

Verði vart við aukaverkanir er mikilvægt að hafa tafarlaust samband við meðferðaraðila í síma +354 544 4450. Náist ekki í hann ber að leita strax læknisaðstoðar og senda jafnframt meðferðaraðilanum strax tölvupóst frá heimasíðu óháð vikudegi en huga ber að því að slíkur póstur er ekki persónuvarinn gagnvart 3. aðila og því mikilvægt að haga skráningu persónuupplýsinga samkvæmt því. Persónuverndaryfirlýsing Útlitslækningar er á heimasíðu.

Fjölnúkleótíðin geta verið frá ólíkum framleiðendum og gerðum allt eftir þínu vali. Sem dæmi má nefna Rejuran, Polyphil, Pluryal, Plinest, Plenhyage, Nucelofill, Newest og HP Cell en allar þessar vörur hafa ólíkar undirgerðir.

Verðlagning meðferða er á heimasíðu Útlitslækningar.

Fyrir liggur staðfesting landlæknis á rekstri heilbrigðisþjónustunnar þar sem meðferðin verður veitt.

 

ATH! HAFIR ÞÚ EKKI HLOTIÐ MEÐFERÐ ÁÐUR MEÐ HÚÐFYLLINGAREFNUM AÐ MEÐTÖLDUM FJÖLNÚKLEÓTÍÐUM (POLYNUCLEOTIDES) ÞARFT ÞÚ AÐ UNDIRRITA UPPLÝST SAMÞYKKI A.M.K. 2 DÖGUM FYRIR MEÐFERÐ. VINSAMLEGAST HAFIÐ SAMBAND VIÐ RITARA Í SÍMA 544 4450 EÐA Á [email protected] TIL AÐ FÁ SLÍKT TIL UNDIRRITUNAR Í SÍMANN ÞINN. 

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út

    [honeypot email]