Skip to main content
Lýtahúðlækningar

Húðfyllingarefni

Eftir janúar 6, 2026Engar athugasemdir

 

 

 

 

 

1. Upplýsingar um meðferðina.

Fylliefni sem notuð eru í húð eða undirhúð geta verið úr ýmsum náttúrulegum eða tilbúnum efnum.

Eitt algengasta efnasambandið sem notað er í fylliefni er hýalúrónsýra. Fylliefni með hýalúrónsýru eru dauðhreinsaðar gelblöndur sem innihalda þverbundna hýalúrónsýru sem ekki er úr dýraríkinu. Hýalúrónsýra er líkamanum ekki ókunn því stór hluti leðurhúðar okkar inniheldur hana. 

Önnur fylliefni eru oft efnasambönd með:

– Kalsíumhýdroxýlapatíti, sem er steinefnalíkt efnasamband sem finnst náttúrulega í mannabeinum. Það hefur verið notað í lagan tíma í tannlækningum og lýtaaðgerðum þar sem uppbygging fer fram.

– Pólý-L-mjólkursýru sem er tilbúið fylliefni sem hjálpar til við að örva kollagenframleiðslu.

– Amínósýrum, svo sem glýsín, L-prólín, L-leúsín og L-lýsín.

Mörg fylliefni innihalda að auki staðdeyfilyfið lídókaín.

Efnunum er sprautað inn í húðina til að leiðrétta línur, hrukkur og fellingar í andliti, móta varir og bæta andlitslínur. Þau eru einnig notuð til að endurheimta teygjanleika húðarinnar og draga úr óreglum á yfirborði húðarinnar. Árangur meðferðar er yfirleitt góður.

Fylliefni gefa vanalega árangurinn strax við innsprautun. Þó eru til undantekningar á þessu hvað varðar pólý-L-mjólkursýru þar sem árangurinn kemur fram á nokkrum mánuðum því það örvar líkamann til kollagenframleiðslu sem tekur tíma að lokinni meðferð. Önnur undantekning er pólýmetýlmetakrýlat sem er hálf-varanlegt fylliefni.

Óvanalegt er að endurtaka þurfi meðferð stuttu eftir upphaflegu meðferðina en það getur þurft þegar fellingar eru sérstaklega djúpar eða þegar varir eru ekki fullkomlega samhverfar eftir meðferð.

Allt eftir meðferðarsvæðum og fylliefnum, geta áhrif fylliefnis varað í 6-12 mánuði en varir oft í 6 mán., en þetta tímabil getur verið lengra eða styttra. Pólýmetýlmetakrýlat er oft álitið endingarbetra samanborið við önnur fylliefni sem líkaminn getur brotið niður.

Eftirfylgni hjálpar til við að viðhalda árangri.

Fylgikvillar geta verið algeng viðbrögð eins og þegar stungið er með nál í húðina eða þegar stungulyf eru notuð. Þessi viðbrögð geta falið í sér roða, bólgu, verki, kláða, marbletti og eymsli á meðferðarstaðnum. Þau eru almennt væg og hverfa venjulega skömmu eftir inndælingu eða nokkrum dögum eftir hana fyrir utan varir þar sem það getur tekið viku að jafna sig.

Þá er áhætta sem fylgir því að sprauta á svæði með undirliggjandi viðkvæmum vefjum, t.d. taugum, æðum eða augum við meðhöndlun í kringum þau. Einstök sjaldgæf tilfelli af sjóntruflunum, þar á meðal blindu, hafa verið tilkynnt þegar fylliefni eru notuð í kringum augu, nef eða ennisleiti. Einstaka tilkynningar hafa borist um litla hnúta sem myndast á meðferðarstöðum og óreglu sem geta varað í nokkra mánuði. Pólýmetýlmetakrýlat er þekkt af því að geta valdið kekkjum sem myndast eða sjást undir húðinni.

Í sjaldgæfum tilfellum hefur verið greint frá bólguviðbrögðum. Þau hafa falið í sér roða, þrota og herðingu á stungustað, sem getur stundum haft áhrif á nærliggjandi vef. Viðbrögð hafa komið fram annað hvort nokkrum dögum eða nokkrum vikum eftir meðferð. Þau hafa almennt verið væg til miðlungs alvarleg og sjálfsþrengjandi og meðallengdin álitin vera tvær vikur. Í sjaldgæfum tilfellum hafa viðbrögðin komið aftur og varað í nokkra mánuði. Það er mjög mikilvægt að þú hafir strax samband við meðferðarlækninn óháð vikudegi fáir þú aumt hersli nokkrum klukkustundum eða næstu daga eftir meðferðina, breytt taugaskyn, verki, æðaslátt, sjóntruflanir eða önnur einkenni þar sem fylliefni geta þrengt að æðum eða taugum og borist eftir æðum. Náir þú ekki til hans skalt þú leita strax eftir læknisaðstoð en jafnframt tilkynna meðferðarlækninum um einkennin. Gerist þetta, og ef um hýalúrónsýru fylliefni er að ræða, er reynt að leysa efnið strax upp með hýalúrónsýruhvata til að aftra varanlegum skaða svo sem drepi.

Þá er þekkt mislitun húðar, hnútar, þykknun/herðing, sýking/kýli, bólur sem líkjast þrymlabólum, átfrumuhnúður (granuloma), ofnæmisviðbrögð, blóðþurrð/drep, rýrnun/ör, herpes útbrot sem geta krafist lyfjameðferðar, útbrot, kláði, háræðavíkkun og ofsakláði.

Í mjög sjaldgæfum tilfellum hafa einstaklingar fengið sýkingar/bólgu sem þarf að meðhöndla með sýklalyfjum eða öðrum meðferðum. Þá er mjög óvanalegt að fylliefnið færist til sem getur krafist þess að hluti þess sé leystur upp sé um hýalúrónsýru að ræða.

Deyfilyfið lídókaín í fylliefnum eða í kremum/smyrslum með eða án deyfilyfsins prílókaín sem stundum eru notuð aukalega má ekki nota hjá einstaklingum með þekkt ofnæmi fyrir lídókaíni, prílókaíni eða öðrum staðdeyfilyfjum af amíðgerð. Unnt er að framkvæma snertiofnæmispróf til að kanna mögulegt ofnæmi fyrir meðferð. Líkt og við gjöf tanndeyfingarlyfja, er minnkuð sársaukatilfinning og hiti á meðhöndlaða svæðinu í um tvær klukkustundir eftir meðferðina.

Ráðfærðu þig við meðferðarlækninn varðandi lídókaín ef þú ert:

  • með hjartsláttartruflanir.
  • að taka lyf núna, nýlega eða á næstunni sama hvort þau séu með eða án lyfseðils þar meðtalin náttúrulyf, lyf við hjartsláttartruflunum (t.d. amíódarón eða sótalól), flogaveiki (fenýtóín eða fenóbarbítal) eða við sýkingum (súlfónamíð eða nítrófúrantóín).
  • með hjartabilun.
  • með skerta lifrarstarfsemi.
  • með skerta nýrnastarfsemi.
  • með flogaveiki eða aðra taugasjúkdóma.
  • á öðrum staðdeyfilyfjum.
  • með sjaldgæfan arfgengan sjúkdóm sem kallast „glúkósa-6-fosfat-dehydrógenasaskortur“.
  • með kvilla sem tengist magni litarefnis í blóði sem kallast „methemóglóbíndreyri“.

Við mælum ekki með notkun fylliefna hjá konum sem hafa í hyggju að verða óléttar, eru óléttar eða eru með barn á brjósti.

Þú þarft að vera 18 ára til að hljóta meðferð.

Meðferðarlæknir þinn hefur sjúklingatryggingu hjá Sjúkratryggingum Íslands og starfsábyrgðartryggingu hjá TM. Sé ástæða til að sækja bætur er mikilvægt að snúa sér fyrst til meðferðarlæknis þíns.

Verði vart við aukaverkanir er mikilvægt að hafa tafarlaust samband við meðferðaraðila í síma +354 544 4450. Náist ekki í hann skal þú leita læknisaðstoðar og senda jafnframt meðferðaraðilanum strax tölvupóst frá heimasíðu en huga ber að því að slíkur póstur er ekki persónuvarinn gagnvart 3. aðila og því mikilvægt að haga skráningu persónuupplýsinga samkvæmt því. Þá hefur mér verið bent á persónuverndaryfirlýsingu Útlitslækningar á heimasíðu.

Fylliefnin geta verið frá ólíkum framleiðendum eftir þínu vali. Algeng fylliefni með hýalúrónsýru eru Restylane, Juvéderm og Belotero sem öll koma í nokkrum undirgerðum, Profhilo H+L, Revolax deep with lidocaine eða Jalupro Classic sem inniheldur einnig amínósýrurnar glýsín, L-prólín, L-leúsín og L-lýsín. Þá inniheldur Radiesse kalsíumhýdroxýlapatít á meðan Sculptra inniheldur Pólý-L-mjólkursýru auk karboxýmetýlsellulósa.

Kostnaður við meðferðina er birtur á heimasíðu Útlitslækningar.

Fyrir liggur staðfesting landlæknis á rekstri heilbrigðisþjónustunnar þar sem meðferðin verður veitt.

ATH! HAFIR ÞÚ EKKI HLOTIÐ MEÐFERÐ ÁÐUR MEÐ HÚÐFYLLINGAREFNUM AÐ MEÐTÖLDUM FJÖLNÚKLEÓTÍÐUM (POLYNUCLEOTIDES) ÞARFT ÞÚ AÐ UNDIRRITA UPPLÝST SAMÞYKKI A.M.K. 2 DÖGUM FYRIR MEÐFERÐ. VINSAMLEGAST HAFIÐ SAMBAND VIÐ RITARA Í SÍMA 544 4450 EÐA Á [email protected] TIL AÐ FÁ SLÍKT TIL UNDIRRITUNAR Í SÍMANN ÞINN. 

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út

    [honeypot email]