Skip to main content
Húðsjúkdómar

Ekki alltaf ekta aloe vera

Eftir mars 22, 2013desember 7th, 2020Engar athugasemdir

Eftirfarandi grein um aloe vera birtist í Morgunblaðinu þann 14. nóv. 2005:

Ekki alltaf ekta aloe vera

HEILSA | Ágreiningur um hvað sé nákvæmlega í aloe vera hlaupi.

Úrvalið af vörum með aloe vera hefur aukist gríðarlega og má nefna krem og hlaup, pillur, drykki, jógúrt, skyr, sjampó, salernispappír og sængur. Bolli Bjarnason húðsjúkdómalæknir sagði Ingveldi Geirsdóttur að þótt jurtin hefði verið notuð í aldaraðir væri hún enn rannsóknarefni.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is

Bolli Bjarnason, húðsjúkdómalæknir hjá Útlitslækningu, segir að aloe vera vörur þurfi ekki að vera ekta bara vegna þess að það standi á pakkningunni: „Mesti lækningamátturinn er sagður vera í vörum með milli 10.000-20.000 fjölsykrur á lítra. Sé IASC viðurkenningarmerki á pakkningunni segir það að varan hafi verið metin og samþykkt af alþjóðlegri aloa vera vísindanefnd (International Aloe Science Council) í Bandaríkjunum. Þangað geta allir framleiðendur sent vörur sínar til gæðamats.“

Bolli segir að þó að jurtin hafi verið notuð til lækninga í aldaraðir sé verkun hennar enn rannsóknarefni: „Í dag er hlaup jurtarinnar meðal annars notað í lækninga- og snyrtivörur. Það hefur verið notað til að minnka bólgur og græða ýmiss konar sár eins og brunasár, sár í munnholi, fótasár og jafnvel magasár. Menn hafa gengið svo langt að reyna það til meðferðar á alnæmi og hafa þar velt fyrir sér mögulegum áhrifum á mótstöðu við veirunni. Einnig hafa menn beitt því gegn krabbameini. Með því að borða það er því haldið fram að það geti læknað margt svo sem þvagsýrugigt, hægðatregðu og liðbólgur.

Aloe vera hlaupi hefur verið beitt í tannlækningum til að minnka verk og flýta græðslu sára eftir aðgerðir. Dýrin hafa einnig fengið að kynnast því en þar hefur það verið notað við ofnæmi, sýkingum, bólgu og kláða. Í snyrtivörugeiranum er notkun hlaupsins mikil aðallega vegna rakagjafar en það hefur einnig verið notað í rakstursvörur til að græða skurði. Nú virðist vera í tísku að nota það í matvörur eins og jógúrt, te og ýmsa heilsudrykki.“

Er ekki meðferðarúrræði

Bolli segir að enginn einn þáttur sé hinn eini sanni í aloe vera hlaupinu og því velti menn vöngum yfir hvort lækningamáttur plöntunnar sé til kominn vegna samverkunar eins eða fleiri þátta og þá sérlega milli fjölsykra og þátta sem miðli hinni lífrænu virkni hlaupsins. Hann segir einnig að enn í dag greini menn á hvað nákvæmlega sé í aloe vera hlaupinu, að sumir trúi til dæmis að það sé D-vítamín í því en aðrir ekki.

„Fyrir græðslu vefja byggist ein tilgátan á því að það sé hið háa vatnshlutfall eða 96% eða hærra sem hjálpi græðslunni með því að gera vatn aðgengilegt fyrir vefina án þess að loka fyrir súrefnisflæði til þeirra. Þessi kenning gæti skýrt út fljótleg kælandi áhrif sem hlaupið hefur á bruna en ekki langtímaáhrif á græðslu vefja. Sumir hafa sagt græðsluna vera tilkomna vegna sútunarsýru og fjölsykrulíks efnis. Margir líta á aloe vera eingöngu sem rakagjafa sem nýtist þannig vel í snyrtivörur en margir hafa velt fyrir sér bólgueyðandi áhrifum, aðallega af fjölsykrum og sykurpróteini.

Einnig hafa menn látið í veðri vaka að jurtin geti haft verkjastillandi áhrif og hafa menn velt þar fyrir sér áhrifum salisýlats, mjólkursýru og málminum magnesíum. Salisylöt eru þekkt að því að vera verkjastillandi en margir hafa ekki viljað sleppa þeirri hugmynd að magnesíum geti einnig verkað verkjastillandi með eða án salisýlatsins,“ segir Bolli og tekur fram að aloe vera hlaupið sé aldrei meðferðarúrræði sem megi seinka viðeigandi meðferð læknis.

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út