Skip to main content
Húðsjúkdómar

Ofsakláði og ofsabjúgur (urticaria og angioedema)

Eftir september 28, 2009júní 1st, 2022Engar athugasemdir

Hvað er ofsakláði og ofsabjúgur?

Þessi sjúkdómsfyrirbæri eru náskyld og mynda kláða eða bjúg í húðinni eins og nöfnin gefa til kynna. Ofsakláði veldur bólgu og útbrotum sem kallast rauðkláðaþot (wheals) en þau eru oft klæjandi. Ofsabjúgur veldur hins vegar bjúg á stærra svæði en ofsakláði. Það sem skilur þessi sjúkdómsfyrirbæri að er hversu ofarlega í húðinni vökvamyndunin verður.

Bólgan i rauðkláðaþoti myndast ofarlega og kemur fram sem afmarkaðir oft rauðir hringir með eðilegri eða ljósari húð í miðjunni eða sem litlar upphækkanir. Klæjar oft í þessi útbrot. Hver stakur blettur getur staðið í upp undir tvo sólarhringa. Stundum verður eingöngu vart við kláða en engin útbrot. Í undantekningartilvikum geta sumir ofnæmisvakar sem valda sjúkdómnum valdið blóðþrýstingsfalli og losti (anaphylactic shock).

Vökvasöfnunin í ofsabjúg myndast neðar í húðinni þannig að viðkomandi svæði lyftist upp og þá helst þar sem húðin er lítið bundin niður af undirliggjandi vef eins og t.d. á vör eða í kringum augun.

Vegna þess hve náskyld ofsakláði og ofsabjúgur eru geta bæði sjúkdómsfyrirbærin verið til staðar samtímis hjá sama einstaklingi.

Hvernig verður þetta til?

1. Eðlisfræðilegur ofsakláði (physical urticaria).

Þessi gerð ofsakláða er tilkomin vegna eftirtalinna þátta:

  • A. Hiti (heat urticaria)
  • B. Kuldi (cold urticaria)
  • C. Þrýstingur (pressure urticaria)
  • D. Tif (vibration urticaria)
  • E. Líkamleg áreynsla (cholinergic urticaria)
  • G. Sól (solar urticaria).

2. Náttúrufæði og fæðubótaþættir.

Þessi gerð fæðu leiðir stundum til þessara sjúkdómsfyrirbæra.

3. Lyf.

Stór hópur lyfja getur valdið aukaverkunum sem koma fram sem ofsakláði og/eða ofsabjúgur.

4. Sýkingar.

Sýkingar geta framkallað ofsakláða og/eða ofsabjúg. Slíkar sýkingar geta leynst víða, eins og t.d. í þvagblöðru, öndunarfærum og tannholdi. Stundum eru sýkingarnar einkennalausar fyrir utan ofsakláðann og/eða ofsabjúginn.

5. Matur og viðbótarefni í mat (additives).

Sjá flipann “Matarofnæmi”.

6. Ættgengur ofsabjúgur og áunninn ofsabjúgur (hereditary angioedema and aquired angioedema).

Hér er um að ræða truflun í svokölluðu hjástoðarkerfi (complement system) sem er lífefnafræðilegt ferli sem hjálpar til við að fjarlæga meinvalda hjá fólki.

Ættgengur ofsabjúgur berst milli einstaklinga með ríkjandi geni (dominant gene). Hann getur sett sig í andlitið, á útlimi og í barkakýlið (laryngeal oedema) þar sem bjúgurinn getur valdið öndunarerfiðleikum. Í sumum tilfellum setur sjúkdómurinn sig í þarma og getur þá valdið bráðum kviðverkjum (acute abdominal pain). Kláði er óvanalegur. Nokkrar gerðir áunnins ofsabjúgs eru til eftir um hvaða truflun er að ræða í hjástoðarkerfinu.

7. Ofsakláðaæðarbólga (urticarial vasculitis).

Stundum leggst sjúkdómurinn á æðar og veldur þá sjúkdómi sem kallast ofsakláðaæðarbólga. Hann einkennist af ofsakláða og purpuri (purpura) sem eru örsmáar blæðingar í húðinni. Í slíkum tilfellum helst ofsakláði stakra húðbreytinga stundum lengur en í tvo daga.

8. Ofsabjúgs-ofsakláða eósínfíklagersheilkenni (Angioedema-Urticaria-Eosinophilic Syndrome).

Þetta er óvanaleg gerð ofsabjúgs og ofsakláða sem stendur yfirleitt í 7 – 10 daga í senn. Þessu fylgir hiti og aukin líkamsþyngd vegna vökvasöfnunar.

9. Óþekktar skýringar.

Í mörgum tilfellum eru undirliggjandi skýringar einfaldlega ekki þekktar.

Rannsóknir

Hvert tilfelli þarf að meta mjög gaumgjæfilega. Oft gefur sjúkrasagan vísbendingar.

1. Eðlisfræðilegur ofsakláði.

Sé ekki augljóst hvaða þáttur kunni af valda ofsakláðanum er einfaldlega hægt að prófa viðkomandi fyrir þeim þætti/þáttum sem eru grunaðir (provocation) og sjá hvort unnt sé að framkalla sjúkdóminn. Framkallist sjúkdómurinn er viðkomandi útsettur aftur fyrir viðkomandi þætti er hann hefur verið einkennalaus í nokkurn tíma ef ástæða er til að auka enn frekar líkur á réttri greiningu.

2. Náttúrufæði og fæðubótaþættir.

Mjög margir þættir í fæði af þessari gerð geta framkallað sjúkdóminn. Hér gildir að taka út allt slíkt fæði og sjá hvort sjúkdómurinn hverfi. Geri hann það er, eftir að maður hefur verið einkennalaus í a.m.k. nokkra daga, prófað með því að setja inn eina fæðutegund í einu með það að markmiði að finna hvaða fæðutegund kunni að valda sjúkdómnum (provocation). Gjarnan er prófað með henni aftur síðar er viðkomandi hefur verið einkennalaus a.m.k. í nokkra daga til að auka líkur á réttri greiningu.

3. Lyf.

Lyf sem kunna að valda sjúkdómnum eru tekin út af lækni. Í völdum tilfellum er nauðsynlegt að velja önnur í staðinn gegn þeim sjúkdómi sem verið er að meðhöndla. Sé um eitt lyf að ræða eða sé eitt lyf tekið út í einu þegar um mörg lyf er að ræða kemur í ljós hvort einkennin hverfi. Prófa má síðar að setja lyfið inn aftur og sjá hvort unnt sé að framkalla sjúkdóminn til að auka líkur á tengslum lyfsins við sjúkdóminn. Stundum er unnt eða nauðsynlegt að taka öll lyf viðkomandi út og setja síðan eitt og eitt lyf inn aftur (provocation) og kanna þannig möguleg tengsl á milli lyfjanna og sjúkdómsins. Gjöf hins grunaða lyfs síðar, er viðkomandi hefur verið einkennalaus í svolítinn tíma, eykur líkindi réttrar greiningar. Í vissum tilfellum er nauðsynlegt að gera lyfjaprófanir af þessu tagi á spítala vegna möguleika á blóðþrýstingsfalli og ofnæmislosti (anaphylactic shock).

4. Sýkingar.

Framkvæmd er læknisskoðun og í framhaldi hennar og sjúkrasögu framkvæmdar ræktanir á örverum (microorganisms) sé ástæða til.

5. Matur og viðbótarefni í mat (additives).

Sjá greinina “Matarofnæmi”.

6. Ættgengur ofsabjúgur og áunninn ofsabjúgur (hereditary angioedema and aquired angioedema).

Sé grunur um þetta er ástæða til að rannsaka hjástoðarkerfið með blóðprufum.

7. Ofsakláðaæðarbólga (urticarial vasculitis).

Rannsóknir þessa sjúkdóms fara fram með vefjatöku úr húð og mælingu á hjástoðarkerfisþáttum.

8. Ofsabjúgs-ofsakláða eósínfíklagersheilkenni (Angioedema-Urticaria-Eosinophilic Syndrome).

Rannsóknir á þessum sjúkdómi beinast að mælingu á magni hvítra blóðkorna (leukocytes) í blóði og mælingu á hversu stór hlutdeild þeirra séu eósínófíklar sem er ein tegund hvítra blóðkorna. Báðir þessir þættir eru hækkaðir í sjúkdómnum.

Hvað er til ráða?

1. Eðlisfræðilegur ofsakláði.

Hér gildir að forðast þann þátt sem veldur ofsakláðanum. Stundum er einn þáttur sem veldur honum og annar sem eykur eða viðheldur honum. Lyfjagjöf hjálpar oft takmarkað. Það eru helst sjúklingar með kuldaofnæmi sem þurfa að fara varlega með að útsetja líkamann skyndilega fyrir kulda t.d. með því að stinga sér í sundlaug því slíkt kann að valda ofnæmislosti.

2. Náttúrufæði og fæðubótarþættir.

Hér gildir einfaldlega að forðast neyslu ofnæmisvakans.

3. Lyf.

Forðast þarf ofnæmisvakann helst með því að skipta út lyfjagjöfinni fyrir annað lyf sem ekki veldur ofnæminu í samráði við þann lækni er stjórnar lyfjagjöfinni.

4. Sýkingar.

Uppræta þarf viðkomandi sýkingu með lyfi.

5. Matur og viðbótarefni í mat (additives).

Forðast þarf neyslu matar eða viðbótarefnis í fæðu sem veldur ofnæminu.

6. Ættgengur ofsabjúgur og áunninn ofsabjúgur (hereditary angioedema and aquired angioedema).

Hér kemur lyfjagjöf til greina. Í undantekningartilfellum kann gjöf blóðvökva (plasma) eða þáttar í hjástoðarkerfinu sem kallast C1-estrakljúfshemill (C1-esterase inhibitor) að vera nauðsynleg í slæmum köstum. Gjöf þessara þátta fer fram á sjúkrahúsi.

7. Ofsakláðaæðarbólga (urticarial vasculitis).

Þessi sjúkdómur svarar oft lyfjagjöf.

8. Ofsabjúgs-ofsakláða eósínfíklagersheilkenni (Angioedema-Urticaria-Eosinophilic Syndrome).

Þessi sjúkdómur svarar oft lyfjagjöf.

Sjá einnig greinarnar “Ofnæmi” (þar er m.a. fjallað um snertibráðaofnæmi (contact urticaria), “Matarofnæmi” og “Snertiofnæmi (contact allergy)”.

BÓKA TÍMA / BOOK AN APPOINTMENT

    * þýðir að þú þarft að fylla út